Milill er máttur safna – í tilefni alþjóðlega safnadagsins.
Einu sinni voru söfn kölluð háskólar „alþýðunnar“ í þá daga sá fólk að safn gæti verið góð uppspretta margvíslegs fróðleiks fyrir allskonar fólk, með ólíkan bakgrunn, börn sem fullorðnir. Þá ekki síst vegna þess að hægt var að bera fram margvíslegan fróðleik sem margur hver á sér flóknar fræðilegar rætur með aðgengilegum hætti. Þannig að safngesturinn getur orðið margs vísari án þess að hafa gengið langskólaveginn. En hvernig má það vera að bara með því að ganga um einhverja sýningu þá verða gestir margs vísari í þeim skilningi að þeir eru talsvert miklu fróðari og hafa jafnvel aukið skilning sinn á margvíslegu efni sem tengist þótt það sé ekki til umfjöllunar á sýningunni?
Þetta er nákvæmlega sami leyndardómurinn og listin. „Dáið er alt án drauma, og dapur heimurinn“ orti Halldór Laxness árið 1918, þá 16 ára en ljóðið birtist Barni náttúrunnar, ári seinna og þá lagt í munn Huldu sem talar þar til ástvinar síns Randvers. Þessar tvær línur fanga ótrúlega stóran sjóð þekkingar, svo sannar í einfaldleika sínum og magnaðar í merkingu sinni. Á þessum miðum eru flest söfn, þar sem reynt er að fanga með munum, myndum, textum o.fl. augnablik úr fjölbreyttri flóru menningarinnar og sem geti þannig bætt við heimsmynd gestanna sem sækja söfnin heim.
Á Gljúfrasteini var nýverið opnuð sýningu um Sölku Völku í tilefni þess að 90 ár eru liðin frá útgáfu síðara bindis sögunnar. Valin var sú leið við sýna 60 myndir Sölku, sem er þó aðeins brot af öllum þeim útgáfum og þýðingum á þessari mögnuðu frásögn. Einnig má sjá ljósmyndir af konum, aðallega, vinnandi við saltfisk, úti sem inni. Það minnir á veröld svo margra sjávarbyggða þegar „lífið var saltfiskur“. Og á svo dásamlegan máta segir Salka frekar hranalega við ástvin sinn Arnald: „...þegar öllu er á botninn hvolft þá er lífið þó umfram alt saltfiskur en ekki draumaríngl,...“.
Salka Valka er skáldsaga en samt er hún svo raunveruleg að hún gæti verið ein af þessum konum sem vaska fiskinn með skupluna bundna um höfuðið og ullarvettlinga með auka þumli á „rauðþrútnum höndunum“. Með því að lesa skáldsöguna, skoða myndir, virða fyrir okkur hluti og listaverk frá þessum tímum, tengjumst við sögusviðinu með lifandi hætti. Þannig þarf gesturinn ekki að þekkja neitt til neins til að njóta bókarinnar og verða fróðari við lesturinn, eða með því að virða fyrir sér þá miklu velgengni sem þessi saga hefur átt að fagna, saga sem er sprottin upp úr raunveruleikanum eins og hann var á uppvaxtarárum skáldsins.