Hljómsveitin Hundur í óskilum mun koma fram á Gljúfrasteini mánudaginn 16. nóvember á degi íslenskrar tungu. Viðburðurinn hefst klukkan 17 og er ókeypis.
Þeir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson fara á hundavaði í gegnum nokkrar af þekktustu skáldsögum Halldórs í tali og tónum. Með alvöruleysið að vopni rekja þeir söguþráð Sjálfstæðs fólks undir þekktu bítlalagi. Frægustu setningar Íslandsklukkunnar eru uppistaða annars hljóðgjörnings. Á milli eru sungin ljóð eftir Halldór, sagt frá bókum hans og öllum brögðum beitt til að opna sagnaheim hans.
Hljómsveitin Hundur í óskilum sem þekkt er fyrir að skauta í gegnum Íslandssöguna á einni kvöldstund tekst hér á við Nóbelsskáldið og afgreiðir hann á sama hátt; þ.e.a.s. á hundavaði. Á 40 mínútum fara þeir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson í gegnum nokkrar af þekktustu skáldsögum Halldórs í tali og tónum. Með alvöruleysið að vopni rekja þeir söguþráð Sjálfstæðs fólks undir þekktu bítlalagi. Frægustu setningar Íslandsklukkunnar eru uppistaða annars hljóðgjörniings. Á milli eru sungin ljóð eftir Halldór, sagt frá bókum hans og öllum brögðum beitt til að opna sagnaheim hans fyrir unglingum.
Hljómsveitin Hundur í óskilum tók til starfa árið 1994 og hefur nú spilað linnulaust í tuttugu ár. Á seinni árum hefur hún látið að sér kveða á leiksviði og hrepptu þeir Hjörleifur og Eiríkur grímuverðlaun fyrir tónlistina í hátíðaruppfærslu Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni árið 2010 og einnig fyrir tónlistina í Sögu þjóðar sem sett var upp hjá Leikfélagi Akureyrar 2012. Þá hefur sveitin gefið út tvo hljómdiska: Hundur í óskilum og Hundur í óskilum snýr aftur.
Hjörleifur Hjartarson er tónmenntakennari að mennt en hefur fengist jöfnum höndum við tónlist og skriftir um árabil. Hann hefur komið að nokkrum leiksýningum hjá LA og eftir hann liggja ritsmíðar af ýmsum toga; leikrit, ljóð, söngleikir, prósi og þýðingar.
Eiríkur Stephensen er menntaður blásarakennari og tónfræðingur frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann er skólastjóri Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Eiríkur tók þátt í uppfærslu LA á Rummungi ræningja 1998 og Íslandsklukkunni hjá Þjóðleikhúsinu 2010.