70 ár frá Nóbelsverðlaunum Halldórs Laxness
31.10 2025
Í ár fagnar Gljúfrasteinn sjötugsafmæli verðlaunanna með fjölbreyttum viðburðum sem varpa ljósi á verk skáldsins, áhrif Nóbelsverðlaunanna, menningararfleifðina og lestur ungs fólks á verkum Halldórs Laxness í dag. Nóbelsverðlaunin sjálf verða til sýnis í Landsbókasafni Íslands. Sýningin, sem er í samstarfi við Seðlabanka Íslands og Landsbókasafnið, opnaði 27. október og stendur til 19. desember.
Á málþingi í Norræna húsinu þann 6. nóvember munu fræðimenn, listamenn og lesendur koma saman og ræða um verk Halldórs Laxness, áhrif hans sem höfundar og erindi hans við nútímalesendur.
Af sama tilefni opnar Louise Calais, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, sýningu um Nóbelsverðlaunin í anddyri Norræna hússins áður en málþingið er sett og hefst dagskráin kl. 16. Sýningin mun standa til 23. nóvember.
Dagskrá málþingsins er svohljóðandi:
-
Salka – ástin og dauðinn
Bókmenntafræðingurinn og rithöfundurinn Halldór Guðmundsson ræðir við Unni Ösp Stefánsdóttur, leikskáld og leikkonu, um nýtt verk hennar byggt á skáldsögunni Sölku Völku. Unnur mun síðan flytja sýnishorn úr verkinu.
-
Excellence from the Outskirts: What a Difference a Nobel Prize Can Make
Mads Rosendahl Thomsen, prófessor í bókmenntum við Árósaháskóla og sérfræðingur í kerfi heimsbókmenntanna.
-
Jökullinn stendur opinn: Um lestur ungs fólks á verkum Halldórs Laxness í ljósi Kristnihalds undir Jökli. - Anna Rós Árnadóttir, bókmenntafræðingur og ljóðskáld.
Kynnir er Halldór Laxness Halldórsson.
Dagskráin fer öll fram á íslensku, að frátöldum fyrirlestri Mads Rosendahl Thomsen sem flytur erindi sitt á ensku.
Að málþinginu standa Sendiráð Svíþjóðar á Íslandi, Gljúfrasteinn, Forlagið, Reykjavík Literary Agency, Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands og Norræna húsið.
Boðið verður upp á léttar veitingar og eru öll velkomin.
Hér má sjá viðburðinn á facebook.
Þar að auki hefur Gljúfrasteinn birt efni um Nóbelshátíðina í Stokkhólmi 1955 sem upphaflega var unnið af Jóni Karli Helgasyni og Önnu Melsteð fyrir vef RÚV. Þar er meðal annars vísað í fléttuþáttinn Sex dagar í desember, sem frumfluttur var í Ríkisútvarpinu árið 1994 og fjallar um aðdraganda hátíðarinnar.
Þann 5. nóvember kl. 19 verður fer svo fram barsvar um Halldór Laxness í Stúdentakjallaranum, í samstarfi við Bóksölu stúdenta, Forlagið og Reykjavík Literary Agency, þar sem gestir geta sýnt þekkingu sína á skáldinu og íslenskri bókmenntasögu á skemmtilegan hátt.
Þessum viðburðum er ekki einungis ætlað að fagna sögulegum atburði, heldur að vekja áhuga nýrra lesenda á verkum Halldórs og varpa ljósi á birtingarmyndir arfleifðar hans í íslenskri menningu.
Halldór and Auður with Halldór's Nobel Prize Certificate