65 ár frá því Halldór Laxness tók við Nóbelsverðlaunum

10/12 2020

Halldór Kiljan Laxness tekur við Nóbelsverðlaununum í bókmenntum árið 1955

HEMINGWAY 1954. LAXNESS 1955 

Í dag, 10. desember árið 2020 eru 65 ár liðin frá því að Halldór Kiljan Laxness tók við Nóbelsverðlaunum í Stokkhólmi. Hann er eini Íslendingurinn sem hlotið hefur bókmenntaverðlaun Nóbels. Halldór hafði verið orðaður við verðlaunin um nokkurt skeið en ári áður hafði Ernst Hemingway fengið verðlaunin.  
Í ævisögu Halldórs Laxness sem Halldór Guðmundsson skrifaði er vitnað í frétt í Þjóðviljanum frá árinu 1954 eftir að tilkynnt var að Hemingway fengi Nóbelsverðlaunin. Í fréttinni er sagt frá því að sænsk blöð hafi fullyrt að hart hafi verið deilt í sænsku akademíunni um hvor þeirra skyldi hljóta verðlaunin, Laxness eða Hemingway ,,og verið mjótt á mununum,” eins og segir í Þjóðviljanum.
Ári síðar, í október árið 1955 fer Halldór til Svíþjóðar ,,enda hefur kitlað hann að vera nærri ef kallið skyldi koma” segir í ævisögunni. Daginn sem formaður nefndarinnar tilkynnir að sænska akademían hafi ákveðið að veita Halldóri Laxness Nóbelsverðlaunin er hann því staddur í Gautaborg hjá vini sínum, Peter Hallberg sem um áratugaskeið rannsakaði verk Halldórs. Rökstuðningur akademíunnar var að Halldór Laxness fengi verðlaunin fyrir litríkan sagnaskáldskap sem endurnýjað hefði hina miklu íslensku frásagnarlist.
 

DRAUMUR SVEITAPILTS UM AÐ SKRIFA FYRIR HEIMINN RÆTIST 

Í ævisögu Halldórs segir að það hafi verið glatt á hjalla heima hjá Peter Hallberg þetta kvöld ,,Og auðvitað var Halldór hamingjusamur hvernig sem á það er litið. Verðlaunin voru tákn þess að hér hafði ræst draumur hins unga sveitapilts að skrifa sögur fyrir heiminn.” Í viðtali við Morgunblaðið daginn eftir tilkynninguna segir Halldór að fréttin hafi kvisast hratt út ,,gatan var orðin troðfull af blaðamönnum, ljósmyndurum og útvarpsmönnum langt fram á kvöld. Þá hvarf ég á brott, enda var ég hættur að sjá nokkurn skapaðan hlut eftir ljósaflóðið við myndatökurnar.“ Í frétt í Þjóðviljanum sama dag segir Halldór að viðurkenningin gleðji hann afar mikið ,,ekki aðeins sjálfs mín vegna heldur einnig af öðrum ástæðum, ekki sízt Íslands vegna.“ Á blaðamannafundi sem haldinn var á heimili Peters Hallberg var Halldór meðal annars spurður um stjórnmál. „Ég er ekki stjórnmálmaður, heldur bókmenntamaður, sem ritar skáldsögur. Menn hafa áfellst mig fyrir þrennt – kaþólsku, kommúnisma og kapitalisma. Ég er ekki lengur kaþólskur, ég er ekki kommúnisti – og hvað kapitalismanum viðvíkur verður að leita svarsins í bókum mínum, því að það er álitamál,“ svaraði Halldór.

Á sama tíma heima á Íslandi, nánar tilltekið á Gljúfrasteini var Auður Laxness eiginkona Halldórs. Hún rifjaði þennan dag upp í viðtalsbók sem Edda Andrésdóttir tók saman
,,... mér datt í hug að skrúfa frá BBC niðri í borðstofu. Fréttatíminn var þá á enda, ég heyrði þó eitt orð þularins, sem var nafnið Laxness.” Hún segir að sér hafi brugðið við að heyra fréttina og strax reynt að hringja í Halldór en ekki náð sambandi við hann fyrr en undir kvöld. En síminn á Gljúfrasteini hringdi látlaust. Það voru ættingjar, vinir, vinkonur og kunningjar að óska henni til hamingju. ,,Ég sleppti ekki símanum næstu fjórar klukkustundirnar, fékk ekki tóm til að klæða mig nema lauslega, og nú sagði ég við alla sem hringdu: ,,Þið komið í kvöld.”  Um 100 manns voru í fyrstu Nóbelsverðlaunaveislunni á Gljúfrasteini þetta kvöld.  

AÐ GERA ÖNGRI SKEPNU MEIN OG GLEYMA ALDREI ÞEIM SEM ERU SNAUÐIR 

Stóra veislan var síðan um rúmum mánuði síðar þegar verðlaunaafhendingin fór fram í Stokkhólmi laugardaginn 10. desember. Gústaf Adolf Svíakonungur afhenti Halldóri verðlaunin við hátíðlega athöfn. Ríkisútvarpið útvarpaði beint frá atburðinum. Eftir afhendinguna var hátíðarkvöldverður í Ráðhúsi Stokkhólms þar sem Halldór flutti þakkarræðu sína.

Í ræðunni sagði Halldór að þegar hann var farið að gruna að ákvörðun sænsku akademíunnar myndi varða hann hafi hann hugsað til vina sinna og ástvina, sérstaklega þeirra sem stóðu honum næst í æsku. Fólks sem þá var horfið sjónum en hafði með návist sinni í lífi Halldórs lagt undirstöðuna að hugsun hans, eins og hann orðaði það.
,,Ég hugsaði einmitt til þeirra undursamlegu manna og kvenna þjóðdjúpsins, sem veittu mér fóstur. Ég hugsaði til föður míns og móður minnar,  og ég hugsaði sér í lagi til hennar ömmu minnar gömlu, sem var búin að kenna mér ótal vísur úr fornöld áður en ég lærði að lesa. Ég hugsaði og hugsa enn á þessari stundu til þeirra heilræða sem hún innrætti mér barni: að gera öngri skepnu mein, að lifa svo að jafnan skipuðu öndvegi í huga mér þeir menn sem kallaðir eru snauðir og litlir fyrir sér, að gleyma aldrei, að þeir, sem hafa verið beittir órétti eða farið góðra hluta á mis, þeir sem hafa verið settir hjá í tilverunni, einmitt þeir væru mennirnir, sem ættu skilið alúð, ást og virðingu fólksins umfram aðra menn hér á Íslandi.”

Hér má lesa alla þakkarræðu Halldórs Laxness.

Frá Stokkhólmi fóru Halldór og Auður til Kaupmannahafnar. Hún hélt svo heim á leið en hann til Ítalíu því ,,nú vildi hann umfram allt frá næði til að skrifa” segir í ævisögunni. Hann var í Danmörku um jólin og fór síðan til Ítalíu þar sem hann vann að nýrri skáldsögu, Brekkukotsannál.

Hér má sjá myndir frá athöfninni og hátíðarkvöldverðinum í Stokkhólmi 10. desember árið 1955.