Auður átti sér margar fyrirmyndir og var ein þeirra skáldið og hannyrðakonan Theodóra Thoroddsen en um verk Theodóru skrifar Auður í einni af greinum sínum í Hug og hönd.
„Það hafa alltaf verið til konur á Íslandi sem samið hafa útsaum sinn á sama hátt og málarar. Teppin eru oft gerð í vissum tilgangi, til að hylja gat á vegg, jafnvel stundum, eða til gjafa þegar lítið er til að kaupa fyrir. Mér kemur í hug dæmi af Theodóru Thoroddsen sem tók til handargagns gatslitinn og dálítið sígarettubrunninn silkislopp af dóttur sinni, klippti hann niður í tuskur og saumaði svo tuskurnar niður á grunn með allskonar sporum og hingað og þangað saumaði hún frumsamdar vísur til áminningar fyrir dótturina, einlitur kantur var einsog rammi utanum teppið. Þetta teppi notaði svo Katrín Thoroddsen áfram til að leggja yfir sig, uns það var líka orðið að slitrum. Þannig var það þegar ég sá það síðast fyrir meira en tuttugu árum, en ég man varla eftir að hafa séð fallegri eða listrænni grip.“ (úr greininni „Veggtjöld“, birtist í Hug og hendi árið 1974)