Prjónauppskriftir

Auður var annáluð handavinnukona. Eftir hana liggja margir fallegir gripir sem sjá má á Gljúfrasteini. Uppskriftir hennar hafa birst í tímaritum og fékk hún m.a. viðurkenningu árið 1970 í hekl - og prjónasamkeppni Álafoss fyrir frumlega útgáfu af íslensku skotthúfunni. Á þessari síðu verður safnað saman þeim uppskriftum sem liggja eftir Auði og hafa birst á prenti.

Skotthúfa frú Auðar

Árið 1970 hlaut Auður viðurkenningu fyrir prjónaða skotthúfu í hekl- og prjóna­samkeppni Álafoss árið 1970. Uppskriftin er aðgengileg á vef Heimilisiðnaðarfélags Íslands

Garðaprjónuð peysa með ílepparósum

Uppskrift Auðar að garðaprjónaðri peysu með ílepparósum birtist fyrst í ársriti Heimilisiðnaðarfélagsins Hug og hendi árið 1977. Peysan ber vott um hugkvæmni Auðar og stíl en í henni má sjá hvernig Auður notar hið þekkta munstur áttablaðarósina á nýjan og frumlegan máta. Áttablaðarósin er eitt algengasta munstrið í íslenskum hannyrðum og birtist víða í ólíkum myndum. Elsa E. Guðjónsson (1924–2010), deildarstjóri textíl- og búningafræðideildar Þjóðminjasafns Íslands og sú sem hvað mest hefur rannsakað og ritað um íslensk textílverk og hannyrðir, komst svo að orði í greininni Ílepparósir og aðrar rósir að áttablaðarósir væru „svo til á hverju blaði í gömlu sjónabókunum, og hvort heldur litið er á gamlar ábreiður eða altarisklæði, sessur, linda eða íleppa, blasa nær alls staðar við áttablaðarósir í einhverri mynd.“

Virðing Auðar og áhugi fyrir hefðinni leynir sér ekki síður í þessari peysu en í öðrum verkum hennar þar sem gjarnan mætast gamlar hefðir og framúrstefnulegar nýjungar. Peysan sem sést á myndinni prjónaði Auður sjálf og er hún nú í eigu dóttur Auðar, Guðnýjar Halldórsdóttur. Á sýningunni Auður á Gljúfrasteini – fín frú, sendill og allt þar á milli, sem stóð yfir í Listasal Mosfellsbæjar haustið 2014, var peysan sýnd ásamt öðrum verkum Auðar. Uppskriftin úr Hug og hendi birtist hér með góðfúslegu  leyfi Heimilisiðnaðarfélagsins en frá árinu 1966 hefur það staðið að útgáfu ársritsins. 

image description

Peysa og húfa með vestfirsku sniði

Árið 1973 birti Auður uppskrift að prjónahúfu með vestfirsku mynstri í ársriti Heimilisiðnaðarfélagsins Hug og hendi. Í ársriti félagsins 1977 birtist svo uppskrift Auðar að peysu prjónaðri eftir vestfirskum vettlingum. Munstur vestfirskra laufaviðarvettlinga þekkja margir en eins og segir í inngangi Auðar að uppskriftinni voru þeir „ýmist hvítir eða mórauðir með svörtum brugðningum og marglitum kaflabekkjum; einum eða tveim breiðustum, laufaviðarbekkjum, og totan ævinlega svört.“ Í peysunni notar Auður þessa sömu litasamsetningu og hið alþekkta munstur.

Heklaður hattur og þrílit prjónahúfa

Árið 1981 birti Auður tvær uppskriftir að höfuðfötum í Hug og hendiheklaðan hatt og þrílita prjónahúfu.