Þegar litið er yfir verk Auðar sést vel hversu fjölhæf hún var; verkin eru af öllum stærðum og gerðum, allt frá Barbie-fötum eftir nýjustu Vogue-tískunni til stórra og flókinna veggtjalda. Þessi verk bera þess vitni að þau skapaði kona sem hafði sérstaklega næmt auga fyrir formum og litum, ásamt þörf fyrir að endurnýja eldri hefðir og skapa ný viðmið. Nýtnin mótar einnig fagurfræði Auðar og verk hennar. Hún hrífst af verkum forvera sinna sem fundu hverri efnispjötlu nýtt hlutverk í verkum sínum. Í safni Gljúfrasteins er að finna textílverk Auðar og skrif, munsturteikningar, möppur fullar af uppskriftum, úrklippum og prufum ásamt öskjum sem innihalda efnisbúta í alls kyns litum og efnisgerð. Það er safnsins að miðla áfram verkum Auðar og þeim hugmyndum sem birtast í verkum hennar.
Landaparís
Landaparís er púði sem Auður hannaði sjálf og saumaði út með hálfu krossspori. Í hönnuninni gætir áhrifa frá kúbískum stíl og sýnir púðinn glöggt hvernig listakonan Auður notaði útsaum til að skrásetja ýmsa þræði úr eigin lífi. Nafn púðans virðist vera margrætt – Auður byrjaði að hanna munstrið eftir fyrstu Parísarferð sína árið 1948, undir áhrifum listasýningar sem hún sótti þar með verkum Pablo Picasso, en landaparís er líka gamall íslenskur leikur. Sumarið 2018, þegar hundrað ár voru liðin frá fæðingu Auðar, var útbúin uppskrift að púðanum sem nú er til sölu í safnbúðinni að Gljúfrasteini.
Maríuklæðið á Gljúfrasteini
Á Þjóðminjasafni Íslands er að finna altarisklæði frá Reykjum í Tungusveit, sennilega frá 16 öld en eftir óþekktan höfund, og hefur það verið nefnt Maríuklæði. Auður sá Maríuklæðið fyrst í einni af mörgum heimsóknum þeirra mæðgna á Þjóðminjasafnið og varð strax hrifin af gripnum. Í námi sínu við Myndlista- og handíðaskólann átti hún seinna eftir að teikna mynstrið upp og fyllti með því heila teikniblokk. Þegar Halldór hlaut svo nóbelsverðlaunin tæpum áratug síðar ákvað Auður að sauma Maríuklæði handa honum í tilefni tímamótanna og hangir það nú í stofunni á Gljúfrasteini. Guðrún Hafsteinsdóttir, kennari í Mosfellsbæ, hefur ritað fróðlegan pistil um Maríuklæðið og sögu þess, sem einnig er vitnað í efst í þessum texta og sem birtist í ársriti Heimilisiðnaðarfélags Íslands, Hug og hendi, árið 1996.