Endurnýjaði stórbrotna íslenska frásagnarlist
Þann 27. október 1955 komst dómnefnd Sænsku akademíunnar að þeirri niðurstöðu að Halldór Laxness hlyti bókmenntaverðlaun Nóbels. Verðlaunin hlaut hann fyrir litríkan sagnaskáldskap, sem endurnýjað hefði stórbrotna íslenska frásagnarlist. Næstu daga var nafn Halldórs Laxness á forsíðum heimsblaðanna og fögnuðu ýmsir því að dómnefndin skyldi hafa verðlaunað höfund sem enn væri í fullu fjöri. Í mörg ár hafði nafn Halldórs verið nefnt í sambandi við verðlaunin og því kom það ekki svo mjög á óvart að hann skyldi hljóta þau árið 1955.