Þau gáfu út jazzplötuna More Than You Know á vegum Reykjavík Record Shop vorið 2022. Lög þeirra hafa hlotið meira en 5 milljón streymi á Spotify síðan þá. Í framhaldinu skrifuðu þau undir hjá FOUND Recordings, bandarískri útgáfu sem sérhæfir sig í íslenskri tónlist og hefur nú endurútgefið plötuna í viðhafnarútgáfu.
Þau hafa legið í hljóðverinu meira og minna síðan þá og eru að leggja lokahönd á nýja plötu sem mun bera titilinn „More Understanding“ í tilefni af því að tvíeykið er nú öllu hoknara af reynslu en á frumrauninni. Þannig hefur hljóðheimurinn dýpkað á ýmsa vegu, draumkenndir undirtónar færðir á yfirborðið og lagaval einkennist af meiri leikgleði og frelsi. Sömuleiðis syngja þau meira saman, og útsetningar almennt unnar meira í sameiningu. Efnisskráin verður bland af rykföllnum standördum og lögum af mærum jazzins og annarra stefna, og áherslan lögð á pláss, nærveru og samspil radda þeirra Silvu og Steina.
Fimmtudaginn 20. júní kemur út fyrsta lagið af plötunni væntanlegu. Það ber nafnið „I Ought To Stay Away From You" og er runnið undan
rifjum lagasmiðsins mikilhæfa Margo Guryan (1937-2021), en kom fyrst út nú í vor. Ætla má að Silva & Steini spreyti sig á laginu í húsi skáldsins nú á sunnudaginn næsta.
Hægt er að hlýða á tónlist þeirra á Spotify.
Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika.
Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.
Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2024 er haldin í samstarfi við Vinafélag Gljúfrasteins.
Til baka í viðburði