„Í stundareilífð eina sumarnótt“ - Álfheiður Erla og Valgeir Daði á Gljúfrasteini 

Tónlistarfólkið Álfheiður Erla Guðmundsdóttir og Valgeir Daði Einarsson koma fram á stofutónleikum Gljúfrasteins þann 17. júlí næstkomandi. Á tónleikunum, sem bera yfirskriftina Í stundareilífð eina sumarnótt, koma þau víða við og flytja mörg af sínum uppáhaldslögum. Efnisskráin samanstendur af tónlist eftir F. Schubert, B. Britten sem og íslenskum söng- og þjóðlögum. 

Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt. 

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni. 

Álfheiður Erla og Valgeir Daði munu flytja mörg af sínum uppáhaldslögum á stofutónleikum Gljúfrasteins.

Sópransöngkonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir stundaði söngnám í Söngskóla Sigurðar Demetz og í Hanns Eisler tónlistarháskólanum í Berlín, þaðan sem hún lauk bakkalár- og meistaranámi. Álfheiður þreytti frumraun sína í Staatsoper Berlin árið 2019 í hlutverki Mjallhvítar í óperunni Schneewittchen eftir Wolfgang Mitterer, og hefur síðan þá komið víða fram í óperuhúsum í Evrópu. Álfheiður Erla hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2021 sem söngkona ársins í flokknum Sígild og samtímatónlist og var valin í 16 manna úrslit BBC Cardiff söngkeppninnar sama ár. Álfheiður Erla hefur verið fastráðin við Theater Basel í Sviss frá haustinu 2021. Þar hefur hún farið með ýmis hlutverk, meðal annars í Mattheusarpassíunni eftir Bach, Einstein on the Beach eftir Philip Glass og í Don Carlos eftir Verdi. 

Valgeir Daði Einarsson er menntaður tónlistarkennari frá háskólanum í Potsdam í Þýskalandi. Hann býr nú í Basel þar sem hann starfar sem íþrótta- og tónlistarkennari. Valgeir stundaði nám á rafbassa í Tónskóla Sigursveins áður en hann hélt út til Þýskalands í nám. Valgeir hefur verið virkur í tónlistarlífinu á Íslandi og í Berlín sem gítar- og bassaleikari. Hann leikur reglulega með hljómsveitinni Elkvilla og öðru tónlistarfólki. Undanfarin ár hefur hann sett áherslu á kennslu í hreyfingu og tónlist með börnum og ungmennum. 


 

Til baka í viðburði