Lopapeysuverkefnið

Auður Sveinsdóttir situr við píanóið heima á Gljúfrasteini í handprjónaðri peysu.

Árið 2014 hófst samstarf þriggja safna; Gljúfrasteins - húss skáldsins, Hönnunarsafns Íslands og Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi. Tilgangur samstarfsins var að nýta safnkost þeirra auk annarra gagna til þess að rannsaka uppruna, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar. Auglýst var eftir starfskrafti til þess að vinna að verkefninu vorið 2014 og var Ásdís Jóelsdóttir lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands ráðin í starfið. Rannsókn hennar hófst þann 1. september 2014 og stóð yfir til fyrsta desember sama ár. Nú hefur skýrsla Ásdísar verið birt á vef Gljúfrasteins og verða niðurstöður hennar vonandi til þess að auka bæði áhuga og þekkingu á lopapeysunni.

Verkefnið hafði það að markmiði að varpa ljósi á hönnunarsögu íslensku lopapeysunnar ásamt þætti Auðar Sveinsdóttur Laxness og annarra  sem sannarlega tóku þátt í þróun og hönnun peysunnar. Söfnin þrjú búa yfir fjölbreyttum heimildum sem nýttust við rannsóknina en að auki var leitað fanga í ýmiss skrif, auglýsingar í dagblöðum, tímaritum og bæklingum auk þess sem tekin voru viðtöl við fjölmarga einstaklinga. Framlag fyrri fræðimanna á sviði hannyrða í formi skrifa og rannsókna s.s. eins og Halldóru Bjarnadóttur og Elsu E. Guðjónsson var rannsókninni einnig afar mikilvægt.

Það var ekki síst vegna margra og ólíkra hugmynda um uppruna og þróun íslensku lopapeysunnar sem söfnin þrjú ákváðu í sameiningu að hefja slíka rannsókn. Viðfangsefnið tengir þar að auki söfnin saman en oft hefur nafn Auðar Sveinsdóttur Laxness borið á góma í tengslum við íslensku lopapeysuna og stundum fullyrt að hún hafi hannað íslensku lopapeysuna.  Eðli málsins samkvæmt er þessi afstaða ekki óeðlileg í ljósi áhuga og vinnu Auðar á hannyrðum og miðlun hugmynda um þátt þeirra í sögusköpun íslensks samfélags. Auk þess hannaði Auður og þróaði fjölda prjónamynstra og gerði tilraunir með liti og garn. Vitað er að hugmynd að peysumunstri sem hún prjónaði á fyrri hluta fimmta áratugarins fann hún í bók um list Inkaveldisins sem Halldór hafði keypt fyrir hana í Bandaríkjunum. Nú á fyrri hluta 21. aldar er íslenska lopapeysan orðin íslensk arfleifð. Þegar horft er til síðasta áratugar er ljóst að yngsta kynslóð hönnuða „leitar í arfleifðina“ Skýrslan sem nú er komin út er framlag safnanna þriggja til rannsókna á þessu sviði en viðfangsefnið, lopapeysan, gefur tilefni til frekari rannsókna en það hefur sýnt sig á undanförnum árum að hún er í stöðugri þróun og síbreytileg eins og mörg dæmi eru um. Íslenska lopamynstrið er ekki aðeins að finna í öllum sínum fjölbreytileika á íslensku lopapeysunni, heldur sjáum við það á ótrúlegustu hlutum s.s. bolum, servíettum, innkaupapokum og svo mætti lengi telja. Þó lopapeysan okkar sé ekki gömul hefur hún fest sig í sessi sem íslensk arfleifð og hluti af hönnunarsögu þjóðarinnar.

Nýverið hlutu Gljúfrasteinn, Hönnunarsafn Íslands og Heimilisiðnarsafnið styrk úr safnasjóði sem gerir þeim kleift að miðla niðurstöðum rannsóknarinnar í formi sýnigarþar sem gestum mun gefast kostur á að kynnast betur safnkosti safnanna sem tengist íslensku lopapeysunni auk þeirra gagna sem aflað var á meðan á rannsókninni stóð.