Skáldsagan Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness kom út í janúar 1997 hjá Vintage-bókaforlaginu í Bandaríkjunum sem er hluti af Random House útgáfusamsteypunni. Bókin var gefin út vestra af sömu samsteypu árið 1946 og seldist þá í hálfri milljón eintaka á um það bil hálfum mánuði. Engin bók Halldórs Laxness hefur frá þeim tíma komið út hjá stóru bókaforlagi í Bandaríkjunum. Vintage forlagið sérhæfir sig í útgáfu á vönduðum bókum í mjúku bandi.
Fyndin, snöll, kaldhæðin, frábær...
Á bókarkápu getur að líta umsagnir nokkurra bókmenntamanna um Sjálfstætt fólk. Þar er vitnað í inngang Brad Leithousers að sögunni en hann hefur verið óþreytandi við að vekja athygli Bandaríkjamanna á þessari bók. Hann skrifar: „Til eru góðar bækur og til eru stórkostlegar bækur og kannski er til bók sem er ennþá meira: hún er bók manns eigin lífs … Sú bók sem ég met mest eftir núlifandi rithöfund er Sjálfstætt fólk.“ Bandaríski rithöfundurinn E. Annie Proulx segir í umsögn um bókina á bókarkápu: „Lesandi, fagnaðu! Loksins er þessi fyndna, snjalla, kaldhæðna og frábæra skáldsaga aftur fáanleg. Sjálfstætt fólk er meðal þeirra tíu bókmenntaverka sem ég kann best að meta.“ Annar bandarískur rithöfundur, Jane Smiley, sem átt hefur mikilli velgengni að fagna, segir einnig ábókarkápu: „Ein besta bók tuttugustu aldar. Ég get ekki ímyndað mér að neitt veiti manni meiri ánægju en að lesa Sjálfstætt fólk í fyrsta skipti.“
Þýðandi með skrubbu og skólpfötu
Vintage gaf bókina út í þýðingu J. A. Thompsons en hann var enskur háskólamaður sem kenndi við Háskóla Íslands. Hann vann að þýðingunni lengi eftir að hann fluttist aftur til Englands. Þar dvaldist Halldór hjá honum löngum stundum til að fara yfir þýðinguna. „Þegar hann hafði lokið þýðíngunni eftir átta ár þá var það fyrsta verk hans að kaupa sér svuntu skrubbu og skólpfötu og fara að þvo stigana á hóteli nokkru af fimta flokki í Lundúnaborg; þótti honum slíkur starfi hátíð hjá því að þýða Halldór Laxness … og mátti aldrei framar bók sjá eftir það“, skrifar Halldór Laxness í Skáldatíma og bætir við: „Þessi þróun mannsins kom þó ekki í veg fyrir það að þýðíng hans á Sjálfstæðu fólki er með meiri ágætum en flestar þýðíngar sem gerðar hafa verið á mínum bókum í nokkru landi og hefur af dómbærum mönnum í Einglandi verið talin meðal snildarverka í enskum þýðíngarbókmentum fyr og síðar.“
Skáldleg veisla
Bandarísk blöð hafa gefið Sjálfstæðu fólki hæstu einkunn. Stórblaðið The Washington Post sagði að Halldór Laxness væri mikill rithöfundur frá litlu landi og þetta væru gleðilegir endurfundir. Önnur blöð taka í sama streng. Sagan er kölluð „meistaraverk“, „skáldleg veisla“ og sögð vera „ein af þessum stóru.“ Þá er mikið lof borið á persónusköpun höfundarins, –hún eigi sér fáar hliðstæður. Dómurinn í The Washington Post er eftir Dennis Drabelle og ber yfirskriftina „Kraftbirting norðursins“. Hann hefst á orðunum: „Þessari nýju útgáfu á hinni miklu skáldsögu Halldórs Laxness – þeirri fyrstu á ensku síðan 1946 – fylgja mikil lofsyrði. Brad Leithauser sem skrifar inngang nefnir hana „bók [hans] eigin lífs“. E. Annie Proulx segir að hún sé „meðal þeirra tíu bókmenntaverka sem [hún kunni] best að meta,“ og Jane Smiley segir hana vera eina „bestu bók tuttugustu aldar.“ … Mér er það sönn ánægja að bætast í þennan kór. Sjálfstætt fólk hefur í raun allt sem skáldsaga getur boðið upp á.“ Gagnrýnandinn segir að sögusviðið sé haganlega gert, sögupersónurnar festist í huga lesandans, sagan sé full af ástríðum, frásögnin kraftmikil, og þýðingin sé þannig af hendi leyst að hægt sé að nota hana sem fyrirmyndartexta í ensku. Dennis Drabelle skrifar að Bjartur og Ásta Sóllilja séu tilkomumiklar persónur en Halldóri takist jafnvel enn betur upp í aukapersónunum. Gagnrýnandinn ritar að jafnvel í þýðingu sé hann afburðasnjall (brilliant) höfundur og honum takist í örfáum orðum að fanga sannleika sem erfitt sé að henda reiður á. Þá segir hann að lýsingar á veðurfari og landslagi séu sérstaklega hrífandi. Í lok umsagnarinnar segir: „Sum árin – mörg hin síðari, raunar – hafa Nóbelsverðlaunin fallið í skaut lítt þekktum höfundum sem hafa komið fram til þess eins að falla í gleymsku. Öðru máli gegnir sem betur fer um Halldór Laxness: hann er mikill rithöfundur frá litlu landi sem hefði getað verið öðrum ókunnur ef honum hefðu ekki verið veitt Nóbelsverðlaunin. Þetta eru gleðilegir endurfundir.“
Ein af þessum stóru
Tvö áhrifamikil blöð í bandarískum útgáfuheimi, Kirkus Reviews og Publishers Weekly, birtu umsagnir sínar um Sjálfstætt fólk áður en bókin fór á markað, svo sem venja er. Í dómi í Kirkus Reviews er talað um „ógleymanlegar persónur“ en síðan segir: „Sú mynd sem Halldór Laxness dregur upp af Bjarti [í Sumarhúsum] á sér fáar hliðstæður í skáldskap og það eru fáar nútímaskáldsögur sem sýna viðlíka vídd og áhrifamátt. Þessi bók er ein af þeim stóru.“ Publishers Weekly segir um Sjálfstætt fólk að sagan sé „skáldleg veisla, barmafull af háðsádeilu, skopi, samúð, köldu veðri og sauðkindum.“ Í News & Observer segir bandaríski rithöfundurinn og gagnrýnandinn Herbert Mitgang að sagan sé köld, margslungin, þétt og afburðasnjöll, – 20. aldar meistaraverk. Útgáfan á Sjálfstæðu fólki verður gagnrýnandanum síðan tilefni til þess að velta vöngum yfir því hvort hún muni ekki ryðja norrænum bókmenntum braut inn á Bandaríkjamarkað þar sem þær hafi fram að þessu vakið litla athygli.
Brad Leithauser um Sjálfstætt fólk
Hallberg Hallmundsson hefur tekið saman, þýtt og stytt umfjöllun Brad Leithausers um Sjálfstætt fólk. Brad Leithauser er þekktur bandarískur bókmenntagagnrýnandi. Hann skrifaði snemma árs 1997 ritgerð um Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness, sem birtist í New York Review of Books, þar sem hann lýsir hrifningu sinni á þessu stórbrotna skáldverki.
Það vekur ævinlega athygli meðal íslenzkra bókmenntaunnenda þegar einhver málsmetandi maður úti í hinum stóra heimi vekur athygli á og lýsir aðdáun sinni á íslenzkum bókmenntum, hvort heldur það eru Íslendingasögur eða verk nútímahöfunda. Á síðastliðnu ári vakti það gleði og kom reyndar nokkuð á óvart, þegar vel þekktur bandarískur bókmenntagagnrýnandi skrifaði afar lofsamlega um Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Í einskonar inngangi segir hann m.a. svo: „Til eru góðar bækur, og til eru miklar bækur, og einnig kann að vera til bók sem enn er meira: nokkurs konar kjörbók manns eigin tilveru. Sé heppnin með, kann maður einhvern tíma að rekast á skáldsögu, sem maður finnur svo náinn skyldleika við, að allar spurningar um mat (Er þessi bók betri en bara góð? Er hún kannski sígild?) verða ekki annað en smámunaleg aukaatriði. En allt er þetta undir heppni komið, því að sú tilfinning sem ég er að lýsa er sprottin af þeim áleitna, ögrandi grun að þessi undursamlegi nýi lífsauki manns, þessi óafturræki förunautur, hafi hlotnast manni fyrir hreint glópalán. Hver sá sem hefur ósvikinn áhuga á skáldverkum mun fyrr eða síðar rekast á Karamazov bræðurna, Frú Bovary, Hofmóð og hleypidóma, Moby Dick, eða Don Kíkóta, og þeim sem tekið hefur órjúfanlega tryggð við bók af slíku undirstöðutagi mun sú ánægja sem hann finnur til af því ekki gædd þeirri sérlegu, óræðu gæfukennd, sem ég á við; hann mun þess í stað óhultur í þeirri vissu, að helstu bókmenntalegu nautnir hans hafi verið fyrirfram ákveðnar.³
Kjörbók eigin tilveru
„Og hver er þá kjörbók minnar eigin tilveru?“, spyr Leithauser og segir: „Ég man ljóslega fyrstu kynni mín af henni. Ég lauk við síðustu kaflana eitt síðdegi í Róm, þar sem ég sat á hér um bil mannlausu kaffihúsi... Þessi skáldsaga var Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Mér finnst það alltaf nöpur kaldhæðni, að þegar ég hvet fólk til að lesa bókina, verð ég oft fyrst að gera grein fyrir því hver þessi Nóbelsverðlaunahöfundur sé. En það er nú svo, að Laxness vann sín Nóbelsverðlaun fyrir mörgum árum, 1955, og hann er fulltrúi minnsta landsins sem nokkurn tíma hefur fætt af sér viðtakanda þeirra: Íslands, með sína kvartmilljón íbúa. Allar bækur Laxness utan ein (Atómstöðin, sem er mjög þokkaleg, en minni háttar) eru af skrá hjá [bandarískum] forlögum. Ef til vill hefði ég aldrei lesið Sjálfstætt fólk hefði ég ekki, sumarið 1984, farið í tveggja vikna gönguferð um Ísland. Hversu lítt þekktur sem Laxness kann að vera okkar á meðal [þ.e. Bandaríkjamanna], er hann í eigin landi jöfur sem á engan sinn líka, og hver sá sem laðast að Íslandi mun von bráðar verða þess var. Íslensk bókmenntahefð er auðvitað margfræg, en næstum allir helstu dýrgripir hennar, miðaldarsögurnar og -kvæðin, eru eftir nafnlausa höfunda.“
Síðan rekur Leithauser byrjunina á ferli Laxness 1919 og að þá hafi Ísland ekki áður fætt af sér nútímahöfund sem kæmist í hálfkvisti við hann og nefnir að verk hans hafi verið þýdd á meira en fjörutíu tungumál. Síðan segir hann m.a.: „Eins og Hundrað ára einsemd, sem ber alls konar svipuð ættareinkenni, vekur Sjálfstætt fólk á fyrstu síðum sínum upp morgunsár tímans. (Og eins og Hundrað ára einsemd hefur Sjálfstætt fólk verið snilldarlega þýdd á ensku. Þýðinguna gerði Englendingur, J.A. Thompson, á málblöndu sem í skrúði sínu og hrjúfleik minnir á [Thomas] Hardy.) Sagan gerist meðal bænda sem hafa vanist slíkri fátækt að þeir deyja án þess að hafa nokkurn tíma átt í viðskiptum sem snerust um meira en nokkrar krónur í senn. Þetta eru menn sem kannski hætta sér úr heimahögum einu sinni eða tvisvar á ári, þegar þeir fara fótgangandi út í lítið fiskiþorp til kaupa á matvöru; jafnvel Reykjavík er þeim aðeins óljós draumur. Þrátt fyrir það eru þeir hreyknir af móðurmáli sínu. Þótt enginn þeirra hafi nokkurn tíma séð myndastyttu eins og fram kemur þegar ræðan berst að menningu meginlandsins una þeir sér í þeirri vitneskju, að þegar þetta sama meginland fór villt vegar á myrkustu tímum miðalda, var Ísland, með sinni sagnaritun, eitt skærasta leiðarljós heimsbókmenntanna.“ Leithauser nefnir að sögutíminn sé fyrstu áratugir 20. aldarinnar, en ártöl einstakra atburða séu móðukennd. Og síðan: „Sjálfstætt fólk er einmitt saga sem óháð er tímanum. Hún minnir okkur á, að lífið á íslenskum kotbæ hafði varla breyst í þúsund ár; árstíðirnar komu og fóru, en heildareinkennin skortur, harðræði, og æðruleysi voru hin sömu. Um miðbik sögunnar, einhvers staðar í órafjarlægð, brýst þó út eitthvað sem kallað er heimsstyrjöldin mikla. Að öðru jöfnu mundi þetta hvorki þykja nýtt né umtalsvert (á meginlandinu voru menn alltaf „að brytja hver annan niður einsog mör í trogi“), en í þetta sinn keyra átökin verð á íslensku kindakjöti og ull upp úr öllu valdi...“ En hvort sem sé stríð eða ekki stríð, hafi frelsið alltaf verið æðsta takmark söguhetjunnar, Bjarts. Þegar frásögnin hefst, segir greinarhöfundurinn, hefur Bjartur nýlokið átján ára þrældómi á bæ manns sem hann fyrirlítur, hreppstjórans, til þess að safna nægu fé að kaupa sér aumkunarlega smáa jarðeign, Sumarhús, ásamt nokkrum kindum. „Bjartur í Sumarhúsum lítur Heimsstyrjöldina miklu köldum augum og þakklátum: „Bara þeir haldi áfram sem lengst,“ vonar hann. Á endanum getur hann þó ekki fengist um þessa „brjálæðinga“ fyrir sunnan hann getur varla fengist um málefni fólks sem í kringum hann er. Rollurnar í kringum hann eru langtum mikilsverðari. Á þeirra velfarnaði veltur þessi heimur. Hann á í sinni eigin heimsstyrjöld, sem er hvorttveggja í senn, veigamestu og hlægilegustu átök á hnettinum minnsta stríð sem nokkurn tíma var háð. Hann er „generalissimo,“ og allur herinn hans er hundur sem hjálpar honum að smala. Hann kann yfirleitt miklu betur við sig með skepnum en fólki...“
Tvenns konar barátta
Á útjöðrum lífsins, skrifar Leithauser, er fjölkynngi alltaf á ferðinni: „og í Bjarts augum er hvers konar töfralist svartagaldur, kraftaverk engu betri en kukl. Þar af leiðandi er barátta hans á tvennu sviði. Hann stríðir við fjandskap náttúrunnar land svo kalt og óblítt að hungur hefur alltaf ógnað sjálfsþurftarbændum íslenskum. Og hann stríðir við yfirskilvitleg öfl álög. Fyrir langalöngu var dalurinn þar sem Sumarhús standa byggður mannskæðu, blóðþyrstu galdrakvendi, óvættinni Gunnuvöru, sem gekk í bandalag við fjandann Kólumkilla. Hún var að lokum látin svara til saka (og var sundurlimuð), en lævís andi hennar eitrar dalinn enn. Henni til friðunar er venjan að vegfarendur „gefi Gunnvöru stein“ leggi stein í vörðu sem henni var hlaðin. En Bjartur, alltaf sjálfum sér líkur, þverneitar öllu slíku. Hann hefur skömm á hindurvitnum. „Þessu hefur einhver gárunginn logið að kellingunum,“ segir hann. Hjúskapur, bæði í bókstaflegri og myndhverfri merkingu, er eitt af hinum myrku höfuðminnum bókarinnar... allar ástir sölna í Sumarhúsum. Bjartur kvænist tvisvar. Fyrsta kona hans, pukurslega vansæll kvenmaður, gengst sýnilega inn í að flytjast í hreysið til hans einungis vegna þess að hún er, að honum óvituðum, vanfær eftir son hreppstjórans. Hún deyr af barnsförum, alein. Síðari kona hans, heilsulaus, vílsöm kona, sem um dimma veturna norður við Dumbshaf rís varla úr rúmi, fellur loks saman og deyr eftir grimmilegt harðindavor.“
Leithauser segir að öðru hverju óri Bjart fyrir því að konur hans þjáist af óhamingju: „Hann finnur til þess með ugg (enda eru samskifti hans við konur aldrei blátt áfram) að þær hafa varðveitt með sjálfum sér ef til vill sem viðbragð við þeirri yfirþyrmandi, vægðarlausu hvöt hans að vera sjálfum sér nógur, þeirri sannfæringu að „sá sem dregur fram sínar kindur búi í höll“ einhvern kima sálar sinnar, sem hann hefur engan aðgang að. En sá tími kemur, að annars konar ást vitjar Bjarts, nýtt form „hjúskapar“: andlegur skyldleiki tveggja manngerða. Barn fyrri konu hans lifir móður sína, og Bjartur elur það upp sem sitt eigið. Þetta barn, sonardóttir hreppstjórans sem hann fyrirlítur, er þannig úr herbúðum „óvinarins“. En það kemur á daginn, að þrátt fyrir allt fálætið býr í Bjarti einhvers konar klunnalegur hlýhugur til ungbarna; hann lítur á þau af svipaðri mildi og unglömb. Þegar hann kemur fyrst auga á þessa nýfæddu telpu, „undraðist hann hvað þetta var veikt og smátt. Það er ekki að búast við að þetta sé mikið fyrir sér, bætti hann við hálfafsakandi, mikil skelfíng sem mannkynið getur verið aumt þegar maður lítur á það eins og það er í raun og veru.“ Ásta Sóllilja er það háleita nafn sem mærin fær, segir gagnrýnandinn; hún verður sálarblómið hans Bjarts: „Þegar tímar líða, nær sóllilja Bjarts gelgjuskeiði og mörkum fullþroska konu. Þegar hún er um þrettán ára gömul, tekur hann hana fyrst með sér yfir heiðina. Eftir margra tíma þramm kemur hún auga á „nýjan bláma undir himninum“ langt í burtu, sem „sameinaði alt dulræði fjarlægðanna“. Hún verður að spyrja föður sinn hvað þetta geti verið. Það er hafið, segir hann henni. Er þá ekkert hinumegin? spurði hún að lokum. Hinumegin eru löndin, sagði hann hróðugur af því að kunna skil á þessari sjón, löndin sem talað er um í bókmenntunum, konúngsríkin. Þau koma í fiskiþorp og fá inni á hávaðasömu, subbulegu gistiheimili, þar sem þau verða að deila sama rúmi. Um nóttina leitar telpa smeyk eftir föður sínum, og eitt andartak eru viðbrögð hans við henni sem manns við konu hann leggur hönd á hana bera. Agndofa yfir sjálfum sér rýkur Bjartur upp úr rúminu og knýr fast á um að þau haldi tafarlaust heim á leið. Dóttir hans, sem ekki hefur órað fyrir nokkru kynferðislegu við snertingu hans, er furðu lostin. En Bjartur sér til þess þaðan í frá að engin kynferðisleg samskipti verði milli þeirra. „Hjúskapur“ þeirra skal vera algerlega flekklaus."
Síðan rekur Leithauser að Ásta lætur flekkast fyrr en varir. Fimmtán ára verði hún vanfær eftir mislyndan kennara, sem fenginn er til að uppfræða hana og bræður hennar en Bjartur slái hana utan undir og reki hana úr húsi: „Hann lætur hana vita að hún hafi gert honum „skömm“ sem kann rétt að vera, en auðvitað er hann einnig bugaður af óheimfærðri sektartilfinningu og afbrýði sem hann getur engan veginn kannast við. Þannig fer Ásta að heiman ein um miðja nótt í ískaldri rigningu. Þrátt fyrir það sem nýlega hefur fyrir hana borið, er hún enn óragjarn unglingur og dreymir um að finna sér elskhuga sem eigi sér „lönd með sólgullnum pálmagöngum“. Ár líða. Leithauser lýsir því hvernig Bjartur rís úr kreppunni, en Ásta dregst niður í örbirgð hún lýsir því af rósemi „þegar ég svalt með telpunni minni í ofnlausum kjallara hér inn með firðinum.“ Þau tvö hittast aldrei. Hvorugt vill leita á fund hins. Hvorugt vill heldur vægja, jafnvel eftir að Ásta smitast af berklum: Ennfremur: „Bjartur hefur alltaf litið á sjálfan sig sem hermann og þótt sem „stríð“ hans stæði um kindur, en það verður ljóst að hin raunverulegu átök í bókinni eru milli feðginanna. Og þau eru svo hnífjöfn í andstöðu sinni, að um tíma virðist næstum svo sem sagan muni aldrei fá neina viðunandi lausn. Ásta er eina manneskjan í veröldinni sem nokkurn tíma hefur tekist að komast inn úr skrápi Bjarts. Hún er ómótstæðilegt afl. En hann er óhagganleg fyrirstaða. Og hvernig í ósköpunum (er lesandinn stöðugt að brjóta heilann um) á að sætta þetta tvennt?“
Með hálfum huga
Leithauser kveðst fyrst hafa tekið sér Sjálfstætt fólk í hönd með nokkrum ugg, því undirtitillinn, Hetjusaga, hafi gert sig hálfafhuga lestri. Hann var hræddur um að hann ætti í vændum sögu samda í einörðum, þjóðernislegum anda upptendrandi vitnisburð um hreysti og óbuganleik íslensks lundernis. Mundi hér ekki boðið upp á ofgnótt hörku og ónóga fína kaldhæðni, spyr hann og segir síðan: „En maður þarf ekki að lesa lengi til að láta sér skiljast hve algerlega óhæfur Bjartur er sem neins konar tákn þjóðlegra dyggða. Til þess er hann allt of sérlundaður og skapstirður. Og of mikið flón. Bókin er jafnmikil grínsaga og sönn hetjusaga. Þegar Bjartur og hundurinn hans skálma fyrst inn dalinn og hann lætur út úr sér fyrsta orðið í sögunni „Nei“ þá er þegar ljóst að hann er kreppuútgáfa af Ódysseifi, og ormaveikur, lúsugur hundurinn hans er afsláttar-Argos.“ Svo er það kjarni málsins - sjálfstæði Bjarts. Um það segir Leithauser m.a.: „Bjartur er maður sem virðist ekki geta hýst í höfði sér nema eitt markmið fjárhagslegt sjálfstæði, þá trú að „sá sem borgar fyrir sig sé kóngur“ og það er svo fyrirferðarmikið að hann hefur varla rúm til að sinna neinni annarri hugsun... Hin auðuga íslenska skáldskaparhefð er honum í blóð borin. Smám saman, næstum feimnislega, lætur sagan það uppi, að Bjartur er á sína vísu skáld. Kveðskapur hans var svo tæknilega flókinn að hann gat aldrei rúmað neitt innihald; og þannig var um sjálft líf hans líka.“
Eftirtektarverð er þessi skilgreining gagnrýnandans á Bjarti: „Mér er Bjartur ein af hinum stórkostlegu bókmenntapersónum tuttugustu aldarinnar eins og Humbert Humbert eða Jay Gatz/Gatsby eða Gregor Samsa eða Makioki systurnar fjórar. Hann er smásmugulegur og hetjulegur, hrottafenginn og skáldlegur, napur og barnslegur. Allir þessir skapgerðarþættir kristallast á stórbrotinn hátt í hríðarkaflanum mikla, þegar Bjartur, sem farið hefur að leita lambs sem hann saknaði, lendir í blindöskubyl. Áður en veðrinu slotar hefur það gert Bjarti mannraunir sem jaðra við þjóðsagnir. Og þó eru þær á dæmigerðan hátt ofnar saman við fáránlegheit, því að helstu þrautir Bjarts byrja þegr hann hyggst fanga sér hreintarf með berum höndum og skepnan, með veiðimann sinn á baki sér, steypir sér út í beljandi, ískalt vatnsfall: „Hann sat þá hvorki meira né minna en uppundir hendur í Jökulsá á Heiði, og það ekki á neinum venjulegum reiðskjóta, heldur á þeim eina reiðskjóta sem sæmir hinum frægustu ævintýrum.“
Saga um sauðfé!
„Þegar ég segi fólki sem ég kynnist að uppáhaldsbók mín eftir höfund enn á lífi sé Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness, og það spyr mig um hvað hún sé, svara ég Sauðfé“, segir Leithauser. Hann segir viðmælendum sínum að þetta sé saga þar sem bændur séu sífellt að ígrunda sauðfé og athuga sauðfé: „Hún er um bandorma í sauðfé og þráðorma í sauðfé og skitu í sauðfé. Hverjir sem kostir bókarinanr eru, þá er hún laus við töfrandi glæsileik... Bókin er um heyskap og smalamennsku og grjóturð.“ Hann segir að eins og hver önnur stór og mikil skáldsaga, hvetji hún lesanda sem í alvöru glími við umfang hennar til að draga hana saman í eitt allsherjar minni. Og eins og flestar stórar og miklar skáldsögur, sé hún svo margslungin að allar tilraunir til þess arna verði fljótlega að engu vegna nauðsynjar þess að útlista og afmarka. Ennfremur: „Ég hef þegar sagt að kjarni bókarinnar sé stríð milli föður og dóttur. En ef til vill er annað viðfangsefni öllu þyngra á metunum: það stríð sem háð er innan sömu sálar. Sjálfstætt fólk býður upp á þá mest hrífandi lýsingu sem ég hef nokkurs staðar hnotið um á smám saman daglegum samdrætti mennskrar sálar og, áður en lýkur, frelsun hennar. Í sigri sínum á margs konar erfiðleikum, í seinlátri og vandlega ræktaðri velgengni sinni, glatar Bjartur nefnilega einhvern veginn öllu því sem honum er mest um vert í lífinu. Nálægt lokun bókarinnar finnur hann, að hann hefur öðlast það sem hann hefur alltaf álitið hátind lífsins hann er orðinn nógu efnaður til að reisa sér „alminlegt hús“ og þá kemst hann að því að sigurgleði hans er innantóm.
Ekki aðeins eru báðar konur hans dánar, heldur hafa börnin hans líka dáið eða flust úr landi. Að lokum tilkynnir Gvendur honum sá sonurinn sem eftir er og hinum finnst sér skyldastur að hann sé á förum til Ameríku. Bjartur hefur slíkt ógeð á þessu, að hann hefur ekki einu sinni fyrir því að koma upp úr skurðinum sem hann er að grafa til að kveðja son sinn lokakveðju.“ Andartaki síðar, segir Leithauser, er öllu snúið viðá örfínan hátt; bókin hafi boðið lesandanum upp á stóratburði dauða, svik, blindbylji, ástarævintýri, en þegar hún rísi í hápunkt, geti frásögnin varla verið hljóðlátari. „Hann veit ekki alveg hvers eðlis það ómótstæðilega afl er, sem holdgað er í Ástu Sóllilju (það er ást), en sú óhagganlega fyrirstaða sem er sál hans sjálfs, hefur hnikast til. Það sem eftir er sögunnar leggst allt á eitt að lítillækka hann... Framvinda þess arna dregst á langinn. Sál Bjarts víkkar jafnhægt og hún hefur dregist saman fram að þessu. Hann er maður sem fer staðfastlega á ská og gæti aldrei fengið sig til að viðurkenna beinlínis að hann hafi gert rangt í því að afneita Ástu þegar hún var hans mest þurfi. Því þreifar Bjartur fyrst fyrir sér við hana eins og hver annar biðill, með kvæði sem Gvendur flytur henni. Þetta er rammslunginn kveðskapur undir þeim hefðbundna hætti sem Bjartur dáir mest, þrælrímuð sléttubönd þar sem hann talar um klett og blóm sem er „burt“. Ásta Sóllilja lítilsvirðir vísurnar: „Og segðu honum að ég kannist líka við andlausa rímnastaglið hans, sem hann þæfir saman með höndum og fótum. En ég, ég er trúlofuð ungum pilti sem elskar mig. Hann hefur verið í skóla og er nútímaskáld.“ Leithauser rekur síðan fyrirlitningu Bjarts á nútíma skáldskap og ásetning hans að setja saman annað og berorðara kvæði handa Ástu með tilboði um að hún megi leggja hann til ef hann drepist. Og síðan: „Ásta segist ekki kæra sig um að heyra vísurnar, en situr þó undir þeim. Síðan þrumar hún: „Lifandi skal ég aldrei til hans Bjarts í Sumarhúsum,“ en hún hefur líka eftirþanka: „Mér er sama þó hann grafi af mér hræið.“
Fínofið lokatriði
Þessar tvær stríðandi sálir hafa þegar sæst að mestu leyti. Þær eru sameinaðar um eilífð; með því að fela líkamsleifar sínar hvort öðru hafa feðginin heitið hvort öðru trú sinni í dauðanum. Það er aðeins í lítilfjörlegum, stundlegum erjum lífsins sem ógerlegt er að þau komi saman og sú veglynda, snjalla lausn sem Laxness finnur til að gera hið ógerlega gerlegt og knýr Bjart til sátta við dóttur sína er fínofnasta og hjartnæmasta atriði þessarar fínofnustu og hjartnæmustu skáldsögu. Svo snilldarlega eru Bjartur og Ásta dregin, að þeim hættir til að skyggja á allar aðrar persónur bókarinnar. En við hvern endurlestur sögunnar (þeir eru orðnir sex, og ég held enn áfram) finn ég til þess með aðdáun hversu allar aðrar persónur hennar eru líka listavel gerðar. Jafnvel enn betri jafngóð á sína vísu og Bjartur og Ásta eru þriðji sonur Bjarts, Nonni litli, og amma Nonna. Í þessum dal, sem á hvílir yfirnáttúruleg bölvun, stafa töfrar þeirra tveggja úr gagnstæðri, góðkynjaðri átt. Þau eru verur út úr sólbjörtu ævintýri: Hann er þriðji sonurinn, sem hnepptur er í álög, dreymandinn, drengurinn litli sem á sér töfrum undna framtíð; og hún er kerlingin ævarandi, óháð tíð og tíma, sem ber fram furðulegar forspár og gegnir hlutverki hinnar góðu dísar.
Einnig eru þau í nokkurs konar andlegum „hjúskap“. Þau eru ekki aðeins rekkjunautar, þau fullkomna hvort annað, gefa hvort öðru einhverja þá eiginleika sem þeim eru nauðsynlegir til lífs. Nonna er gamla konan sú kvenlega mildi og þolinmóða velþóknun sem hann missti svo hörmulega við dauða móður sinnar. Gömlu konunni er það grunur, að Nonni sé sá eini sem til hennar heyrir þar sem hún umlar eða rausar allan daginn. Ekki svo að Nonni hlusti í rauninni á bænir hennar og söngl eða á orðskviði hennar...“ Að lokum segir Leithauser m.a. svo: „Þegar Laxness vísaði glaðbeittur til sjálfs sín í gervi staðgengils sem „ofar öllum íslendíngum,“ var hann að fullyrða það sem með tímanum mundi reynast svo voldugur sannleikur að það sýndist fremur eins og hlédrægni. Þegar litið er á smæð Íslands og óverulegt hlutverk þess í sögu nútímans þá er það varla undrunarvert að Laxness skuli yfirleitt álitinn ekki aðeins fremsti listamaður landsins á þessari öld heldur líka áhrifamesti borgari þess. Hann er fremri hverjum stjórnskörungi og trúarleiðtoga. Hann hefur, ekki aðeins með skáldskap sínum heldur einnig með blaðamennsku, ritgerðum, og pólitískri stöðu sinni, mótað siði þjóðar sinnar á skeiði örra breytinga.“
Hallberg Hallmundsson tók saman, þýddi og stytti kaflann um Brad Leithauser.