Loksins, loksins

Vefarinn mikli frá Kasmír 1927

Kristján Albertsson (9.7. 1897 - 31.1. 1989) skrifaði fjölda bóka og sá um útgáfu á talsverðu af bókum. Hann var ritstjóri Varðar 1924-27, leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur um skeið og formaður Leikfélagsins, einn af ritstjórum menningartímaritsins Vöku, var lektor í íslensku við Berlínarháskóla og var lengi utanríkisþjónustu Íslands. Hann skrifaði talsvert um verk Halldórs Laxness og þar á meðal þann dóm sem frægastur hefur orðið og hófst með orðunum Loksins, loksins.

Ritdómur

Halldór Kiljan Laxness:
Vefarinn mikli frá Kasmír,
Rvík 1927


Loksins, loksins tilkomumikið skáldverk, sem rís eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenzkrar ljóða- og sagnagerðar síðustu ára! Ísland hefir eignazt nýtt stórskáld ­ það er blátt áfram skylda vor að viðurkenna það með fögnuði. Halldór K. Laxness hefir ritað þessa sögu á 24. aldursári sínu. Ég efast um að það komi fyrir einu sinni á aldarfjórðungi að skáld á þeim aldri semji jafn snjallt verk og þessi saga hans er. Á 64. gráðu norðlægrar breiddar hefir það aldrei fyr gerzt.

„Vefarinn mikli frá Kasmír“ er ekkert meistaraverk ­ en tilþrifin fágæt og glæsileg. Stíllinn er víða gallaður, en yfirleitt kjarnmeiri, blóðríkari, andríkari, meira lifandi, hressandi, villtur og sannur og æskusterkur en hjá nokkrum öðrum íslenzkum skáldsagnahöfundi. Þróun tímaborins íslenzks sögustíls tekur hálfrar aldar stökk með þessari bók H.K.L. Sumstaðar koma fyrir viðvaningsleg ósannindi í mannlýsingum ­ en yfirleitt eru þær frábærlega vel gerðar. Steinn Elliði, Diljá, frú Jófríður, Örnólfur, Ylfingamóðirin, í allar þessar persónur hefir skáldið blásið heitum og mannlegum lífsanda, svipir þeirra eru skýrir, sérkennilegir og eftirminnilegir. Andríkið er sumstaðar tilgerðarlegt, falskt, forskrúfað, líkingar bragðlausar eða ófagrar („hana langaði til að ... strjúka nokkrum tónum um tentan munn“ flygilsins ­ þetta er verulega aumt?) ­ þessu veldur skeikull smekkur skáldsins, en sízt ófrjó ímyndun. Því verk hans er þrungið ofurgnótt skáldlegra hugmynda, sem koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum og vitna um genialt gáfnafar.

H.K.L. hefur orðið fyrir sterkum áhrifum frá stíl og lífsskoðunum margra höfuðskálda Evrópu á síðari tímum ­ Tolstoj, Strindberg, d'Annunzio, Hamsun, Wilde, Jóhannes V. Jenssen o.fl. ­ ennfremur hefir hann lært af yngri, minna þekktum frönskum höfundum og af stíl og formi Þórbergs Þórðarsonar. Við því er ekkert að segja, jafnvel frumlegustu skáld heimsins hafa þroskazt fyrir rík áhrif eldri höfunda. Í heild sinni ber verk hans vott um sjálfstæðan og magnaðan persónuleik, fjölskrúðugan eigin hugsanagróður, mikla sjálfsrækt gáfaðs fullhuga.

Höfuðpersóna sögunnar, Steinn Elliði, einkasonur ríkasta manns á Íslandi, leggur sem tvítugur stúdent alfarinn út í heim, fullur stórra fyrirætlana. Hann finnur að hann „verður aldrei persóna í æfintýrin, sem gerast með þessari þjóð“, vill lifa í stóru löndunum og verða mikið skáld. Hann ætlar sér að snúa baki við heiminum, konunni, öllu sem leitar á hið óæðra í eðli hans, lifa ströngu og hreinu lífi og verða fullkomnasti maður á jörðunni. Sjálfsdýrkun hans og stórhugur eiga sér engin takmörk, listamannsblóðið ólgar í æðum hans, litir lífsins eru sterkir og hrífandi í augum hans, hann er magnaður kynngikrafti heitrar sjálfselsku og fjöri trylltra gáfna til að hugsa og orða á myndríku leiftrandi máli. Þannig kemur hann fyrir sjónir í upphafsþætti sögunnar, þar sem hann er að kveðja Diljá, æskuvinkonu sína, sem tignar hann og elskar.

Steinn Elliði er persónugerfing römmustu sjálfselsku. Honum hefir aldrei þótt vænt um neitt eða neinn nema sjálfan sig. Forelda sína elskar hann ekki, heldur fyrirlítur bæði, Diljá þykir honum aldrei vænt um, hann er kaldur fyrir þrám hennar og þjáningum. Hneigð hans til hennar hefir tvær orsakir: Aðdáun hennar fyrir honum, þegar hann eys af lindum mælsku sinnar og vitsmuna, hina kvenlegu líkamstöfra hennar, sem blunda hálfþroska í ungmeynni og freista hans síðar þegar hún hefir náð fullum blóma. Konur hafa aldrei vakið honum annað en miskunnarlausa, dýrslega girnd, hjarta konunnar er honum lokuð bók og til ástar hefir hann aldrei fundið. Þessvegna sér hann ekkert nema sora og andstyggð í samlífi karls og konu. Afstaða hans til konunnar er skýrasta sönnunin fyrir algjörum skorti hans á samúð með öðrum mannverum. En sú ímyndun hans, að hann elski mennina, er sterkasti vottur þess, hve sjálfsdýrkun hans er blind um tvítugsaldurinn, áður en hann gerist hlífðarlaus og strangur rannsóknardómari síns eigin eðlis. „Eg gæti dáið fyrir heiminn, ef nokkrum væri þægð í því, já, látið krossfesta mig fyrir allt sem er í heiminum. Eg elska svo mennina! Eg elska þá alla, ­ elska þá eins og óvitabörn á hvítum kjólum, eins og franskar smámeyjar í skrúðgöngu, saklausar, bjartar og umkomulausar. Mig langar til að taka þá alla í faðminn og strjúka hendi minni um vanga þeirra, harða og hrjúfa af baráttu, raunum og syndum. Komið þið allir upp að brjósti mér, elsku vinir mínir!“ Þetta segir hann tvítugur, en breytir aldrei vel við nokkurn mann, sneiðir hjá öllum, sem hann ekki væntir sér hjálpar af, særir, óvirðir og hrekur frá sér alla þá, sem elska hann.

En þrátt fyrir sjálfselsku sína og hrottaskap, fær þessi höfuðpersóna sögunnar sterkt á hug lesandans fyrir óvenjulega skapgerðarkosti, en ekki fyrst og fremst fyrir gáfur sínar. (En höfuðgáfa hans er mælskan; hann segir margt djúpviturt, en bullar líka ósköpin öll; fullkominni sjálfselsku getur aldrei verið samfara víðfeðminn skilningur á lífinu). Í brjósti hans brennur sterk og djörf eilíf þrá eftir sjálfsþroskun, fullkomnun, eftir fegrun síns eigin manneðlis og æðra lífi en bæði hann sjálfur og aðrir lifa. Þessi þrá er hinn harði kjarni manngildis hans, sem viðurstyggð lífsins fær aldrei unnið á. Honum er sama um alla aðra ­ sína eigin sál vill hann samstilla þeim vilja, sem býr í sköpunarverkinu, guði. En hvernig á hann að þjóna þessum guði, hvar liggur þorskabraut þess manns, sem ekkert getur elskað nema sjálfan sig, sem er fullkominn einstæðingur í tilverunni, af því að engin tilfinning veitir honum hlutdeild í mannlífinu umhverfis hann? Í þessari spurningu er fólgið viðfangsefni verksins. Af öllu sköpunarverki guðs skilur og elskar Steinn Elliði ekkert stundinni lengur nema að eins sjálfan sig, en mannlífið í heild sinni vekur honum fyrirlitning og andstyggð. Hvernig fær hann nálgast þann guð, sem hann vill helga hverja hugleiðing og hverja athöfn, hvernig fær hann komizt í innilegt samband skilnings og ástar við höfund lífsins?

Þegar vér kynnumst Steini Elliða fyrst, er guðstrú hans, sem á rætur í þránni eftir fullkomnun, eðlilega blandin bölsýni. Honum finnst frá upphafi hálft í hvoru allt vera „hégómi og eftirsókn eftir vindi“, eins og Prédikarinn kemst að orði ­ en lífsgleði hans er of baldin til þess að bölsýni hans sé enn orðin að hugsýki. Guðstrú hans lifir í sátt og samlyndi við vitund hans um fánýti allra hluta. „Eg hefi gert samning við Drottinn um að verða fullkomnasti maðurinn á jörðunni. Það er klappað og klárt,“ segir hann við Diljá. Og enn segir hann: „Nú er ég kominn á þá skoðun, að kristindómurinn sé tómur hvínandi sannleikur frá upphafi til enda.“ Hann talar um trú sína með léttúðarfullri hreinskilni manns, sem innst inni veit og viðurkennir að hann skilur hvorki né elskar þann guð, sem hann vill trúa á.

Sögunni er skift í 8 bækur. Í 3. bókinni kynnumst vér Steini Elliða á næstu árunum eftir tvítugt. Hann hefur hafnað allri guðstrú og hin síbrennandi þrá hans eftir fullkomnun á sér ekkert takmark, en lífskraftur hennar lýsir sér í eirðarlausri, sóttheitri vanlíðan yfir botnlausri andstyggð tilverunnar. Hann virðist lítil mök hafa haft við mennina, hefir mikið lesið, mikið hugsað og bölsýnið heltekið sál hans. Áttavilltur, ráðþrota og fótsár æðir hann um í frumskógum mannlegra hugsana, án þess að láta sér framar til hugar koma að út úr ógöngunum liggi nokkur leið til fyrirheitinna sælulanda lífsþroska og göfgi.

Nýkominn að heiman hafði hann kynnst kaþólskum ábóta og rætt við hann um vandamál mannkynsins. Ábótinn var ef til vill hinn eini maður, sem hafði vakið honum lotningu fyrir persónulegum yfirburðum. Nú ritar Steinn Elliði honum langt bréf um lífsskoðanir sínar og sálarástand. Þetta bréf er bezt ritaði og áhrifamesti þáttur sögunnar, stíllinn mergjaður og sterkur, hugmyndagnótt mikil og sálarlífslýsingin stórfelld og ástríðuþrungin, einkum í síðari hluta þess. Hann byrjar bréfið um haust á ferðalagi, sendir það ekki þá, en bætir við það á nýári sama ár, eftir að bölsýni hans er orðin að nístandi þjáning.

Í fyrri hluta bréfsins er örvilnunin að byrja: „Þegar við töluðum saman þóttist ég vera á réttri leið. Það er einkenni rammviltra að þykjast vera á réttri leið, og þótt þeir fari í tóma hringi og komi tíu sinnum á sama staðinn, þá kostar það andlega baráttu að sannfærast um, að þeir hafi farið í hring ... Eftir að ég hafði orkt tuttugu og átta kvæði (um guð) tókst mér að sannfæra mig um, að ég hafði farið í tuttugu og átta hringi. Eða réttara sagt: ég uppgötvaði, að ég var ekki á neinni leið. Ég sigli hraðbyri út í bláinn. Ég hefi afarmargar skoðanir á því, hvað sé rétt og hvað sé rangt, en því miður verð ég að játa, að ég veit ekki hvað er rétt og hvað er rangt ... Sem stendur er ég á flakki um Suður-England til að leita að sjálfum mér. Ég ætla að reyna að tína mig saman. Ég er eins og vogrek á stangli meðfram langri strönd ... Endurfæðingar mínar og afturhvörf voru aldrei annað en ljóðrænt hugarvingl.“

„ ... Það er ekki annað en máltæki, að mennirnir eigi að keppast við að vera fullkomnir, af því að guð sé fullkominn ... Væri guð fullkominn andi, mundi stjórn hans á heiminum vera hámark siðferðilegrar fullkomnunar. En stjórni heiminum nokkur guð, þá er sú stjórn ekki annað en heimskulegir duttlungar og gerræði við lítilmagnann ... Voldugir andar koma fram í heiminum til að berjast fyrir mannlegri velferð og leggja allt í sölurnar. Þeir elska mannkynið; velferð þess er vín þeirra og brauð. En meðan þessir landleitendur fullkomnunarinnar hafa verið að berjast fyrir velferð mannkynsins, þá skipar Drottinn sjónum að gleypa fyrirvinnuna í kotinu og lætur síðan vindinn feykja þakinu ofan af kofaskrífli munaðarleysingjanna ... Og hann lætur millíón börn deyja úr hungri í Rússlandi, Austurríki og Þýzkalandi þessi ár, sem við lifum á ... Hvers vegna hjálpar hann ekki þessum kveinandi aumingjum? Hvað hafa þeir unnið til saka?“

Í þessum fyrri kafla bréfsins dreymir Stein Elliða þó enn um að vinna einhver óákveðin stórvirki. Hann lýsir andstyggð sinni á konunni og holdlegum samförum af mikilli mælsku og af skörpum en takmörkuðum skilningi lostafulls ungs manns, sem aldrei hefir haft hugboð um aðrar kynferðishneigðir, en hinar frumrænustu, dýrslegustu. Og hann hefir enn trú á fegurð og göfgun fullkomins skírlífis, og hyggst að magnast fyrir það sem alfrjáls og hrein vitsmunavera. Og þó veit maður ekki að hve miklu leyti þessi trú hans á skírlífið og eigin óunnin þrekvirki er brigðlaus sannfæring, en ekki að eins efniviður í kjörgripi orðlistar og myndríki. En hann finnur að úþað er aumkunarverður maður, sem ekki getur unað við neina blekkingu, því hann er alltof sterkur til þess að lifa meðal mannanna“.

Þegar hann ritar síðari hluta bréfsins hefir hann að fullu misst fótfestu á himni og jörð. Nokkrir kaflar úr því nægja til að gefa hugmynd um hvar nú er komið fyrir söguhetjunni:

„Mér stendur andskotans sama um mannkynið. Ég veit ekki mitt rjúkandi ráð. Ég bið yður að hjálpa mér ... Segið þér mér, herra minn, hvaða erindi á maðurinn upp á yfirborð jarðar?

Í allan vetur hef ég verið að berjast við að ala upp í mér þrjár tilhneigingar til að yfirvinna manninn, nefnilega kynvillu, eiturfíkn og sjálfsmorðsfýsn. Í þessum þrem ástríðum, eygi ég æðstu hugsjónir mannkynsins. Mannkynið getur ekki eignast æðri hugsjón en þá að deyja út; lífið er versti óvinur lifandans og „dauðinn er sigur yfir lífinu“, eins og einn af spekingum vorra tíma segir.“

„Lífsveran kemur ekki upp á yfirborðið til annars en deyja ... Líf mitt er eins og neisti undan hóf. Eitt hverfult augnablik birtist ég á yfirborði jarðar og ræð ekki einu sinni litnum á höfuðhárum mínum! Hjartaslög mín eru mæld, andartök mín talin, ­ að eins nokkrum sinnum enn, síðan ekki söguna meir. Ég er hýðið, þar sem vanmátturinn tók sér ból, ­ skjálfandi vofa í glæturönd milli tveggja endalausra myrkra, tveggja svefna. Hvers vegna er manninum ekki prédikað að hætta að endurnýja kyn sitt? Hvers vegna þetta eilífa Sisyfusverk upp og niður brattann? ... Það er lán mannsins, að hann hlaut í vöggugjöf dálítinn skamt af ástríðum, sem leita svölunar. Hvað ætti takmark hans að vera annað en svala ástríðum sínum? ... Svölun kynferðishvatarinnar er æðsta gleði mannsins og réttlætanleg því að eins, að henni sé þannig svalað, að ekki fæðist nýir menn. Kynvillan er æðsta stig kynferðislegrar fullnægingar. Af öllum svölunarleiðum er það stigið lægst og dýrslegast, blindast og ófullkomnast, sem leiðir til jafn-örlagaþrungins viðburðar og fæðingar nýs manns. Takmark mannsins er að tortíma manninum.“

„Hvað geta mikilmennin? Hið eina sem þau fá áorkað, er að ræna mennina hæfileik þeirra til að bera örlög sín. Þeir reka þá út í auðustu eyðimerkur í von um hið fyrirheitna land, en í eyðimörkinni örmagnast lýðurinn og deyr. Þegar bezt lét, reyndist fyrirheitna landið, draumalandið, sjöfalt argvítugra en gamla landið. Það þarf mikinn barnaskap til þess að berjast fyrir hugsjón eða leysa ráðgátu, því á morgun er hugsjónin orðin að óhreinum brókum, sem hafa gengið skækju frá skækju, en ráðgátan er orðin að frímúraratáknfræði. Mannkynið hefir barizt og barizt undir fána mikilmenna sinna í millíón ár til þess að staðfesta þá reynslu eina, að hvergi sé sælunnar land, að eins mismunandi form þjáningar. ... Frummaðurinn gerir sér holur niður í jörðina, og holurnar standa opnar eins og sár yfir þjáningum hans, meðan hann lifir, og falla saman yfir hræi hans að honum dauðum, eins og gróið sár. Lengra verður ekki komizt. Enn hefir enginn numið fegurra draumaland er þriggja álna langa gröf. Eftir nokkur ár spássera maðkarnir einnig um rotnaðan heila minn ... Jafnvel hinn fullkomnasti maður er ekki annað en leiksoppur háðungarinnar.“

„Á miðjum Kaldadal vex ein lítil jurt. Ég veit ekki, hvað hún heitir, en ég sá hana, þegar ég hafði ferðast hálfan daginn. Hún óx þar alein í endalausri grjótmörkinni. Og hún hneigði sig, þegar hún sá mig, því það var í fyrsta sinn, að hún sá lifandi veru, síðan hún fæddist. Og ég sleit hana upp, af því að hún var nákvæmlega nógu löng og mjó til þess, að ég gæti hreinsað með henni pípuna mína.

Ég spyr: hvers vegna reynir lífsaldan að brjótast fram úr dulardjúpinu? Hvað er takmark þessa blinda stríðs við sigursælan dauðann? Lífið er á villigötum! Það á ekki heima í heimi efnisins; það deyr<\q>...

Allt, sem lifir, líður undir lok, ættir sem einstaklingar; sólin kulnar út, og sólkerfin deyja úr kulda og sulti eins og lítil börn. Í fornum spádómum stendur, að dómsins Guð muni koma í eldi. En þetta er falsspádómur: dómsins Guð mun koma í ís. „Töluvert hefir sólin breytzt seinustu tíu mánuði“ (Philippe Soupault),

„og bráðum sortnar sólin
og sundrast jarðarleir.
Og þá verður allt að engu
og engin veröld meir.“


(Þórbergur Þórðarson.)

Ég stend við gluggann minn, horfi út í þokuna og spyr: Hvar verð ég um það leyti, sem sólin er kulnuð út, ­ ég, þessi skynjandi agnarögn af alheiminum, þessi spyrjandi moldarköngull, þetta skjálfandi duftkorn, hýði vanmáttarins, ­ hvar verð ég þá?“

„Hvað ætti að geta svalað sál minni? Ég leita í innstu fylgsnum hugar míns; ég sný upp því, sem niður á, og niður því sem upp á, velti öllu um koll eins og maður, sem hefir tapað flibbahnappnum sínum innan um húsgögnin. Og ég finn ekki neitt, sem ætti að geta svalað sál minni.

Excelsior ­ hærra? Nei, það er að eins nafn á gistihöllum og þvottadufti.“

„Hinar dýpstu skynjanir fara gegnum sál mína eins og reiðarslög. Jarðsagan, saga sólkerfisins, reynsla mannkynsins, ­ allt streymir þetta gegnum veru mína í augnabliksopinberun. Ég er spegilmynd af þroska mannkynsins, af mikilleik þess og smæð, mæðu þess, vizku og villu. Ég er sköpunarverkið sjálft í hryllilegum óttubjarma andvaka sjálfsvitundar. Ég get ekki sofið; mig getur ekki dreymt; ég get ekki gleymt. Ég vaki, sé, sé gegnum allt; ég er skygn; ekkert fær leynzt; ég er allt, ­ alheimurinn fangelsi mitt; heimsendir blundar í barmi mér; ég er einn; ekkert er til nema ég, máttvana hjóm; ég er þjáningin, ­ þjáningin sjálf, skelfingin ­ skelfingin sjálf; dauðinn ­ það er ég.“

Nokkrum mánuðum síðar deyr móðir Steins Elliða suður á Ítalíu. Án þess að fregnin veki vott af söknuði í hjarta hans, fylgir hann þó einhverri innri rödd og fer suður til að sjá gröf hennar. Honum er sagt hvernig dauða hennar hafi borið að. Hún hafði fengið blóðspýting meðan hún var að dansa „saklausan Charleston“ við ítalskan „vin“ sinn, sem ferðaðist með henni, hefðarmann og heimsmann. Hann hafði borið hana inn í hliðarherbergi, og þar gaf hún upp andann í örmum hans. Steinn Elliði hefir tal af þessum síðasta vini móður sinnar, ­ ástúðlegum og andríkum æfintýramanni, sem talar við Stein um unað siðleysisins og dýrð glæpalífsins. Konunni, fórnardýri hinna máttugu, lýsir hann svo: „Örlög nútímakonunnar lýsa úr djúpi augna hennar og æpa: pereat! pereat! Lína hennar er dregin til glötunar, því hún leitar í ástum sínum hinnar æðstu sælu. Yfir báli munaðarins sveima smáir djöflar og syngja látlaust pereat, meðan sál hennar og líkami er að farast. Ekkert getur svalað þeirri höfuðskepnu blindrar girndar, sem öskrar í brjósti nútímakonunnar, ekkert nema faðmlag dauðans. Hlæjandi og kvíðandi, hlakkandi og kveinandi tilbiður hún sína eigin tortíming. Hún eys út ástarþjáningum sínum í vansköpuðum blótsyrðum, gráti, biti, knjáföllum, sóðaskap, tárugum krampahlátrum, blindri þágu andhverfustu atlota yðar.“

Nú hefir Steinn Elliði tæmt til botns bikar viðurstyggðanna. Á kirkjugarðinum, þar sem móðir hans hefir fengið hinztu hvíld, grætur hann eins og barn í fyrsta og síðasta sinn í sögunni. Hann kastar sér niður á „asnaklyfjar af hrísi“, sem liggja fyrir framan hundabyrgi, engist sundur og saman eins og maðkur, hlær og grætur í senn. „Varðhundurinn horfði á Stein Elliða eins og vitur maður, en Steinn Elliði gólaði eins og varðhundur.“

Hann lætur nú um hríð fyrirberast, þar sem hann er kominn, viljalaus og ruglaður, varnarlaus fyrir sjálfsmorðshugleiðingum og sjúkum ólifnaðardraumum. Situr sem þögull áheyrandi sinna eigin hugsana fram á hótelsvölum á kvöldin, meðan máninn „dregur dár að þessari vesalings sál hans eins og óskammfeilin vændiskona, sem setur stút á munninn framan í helgan mann“.

Loks tekur hann á sig rögg og heimsækir ábótann, sem hann hafði hitt nokkrum árum áður. Hann biður hann að bjarga sér, gefa sér trú og dvelst með honum fram undir ár. Klausturvist Steins Elliða er eini þátturinn í sögunni, sem ekki er skemmtilegur. Hann reynir að leita sér hugfrór og staðfestu í trúnni, en maður finnur að það tekst í bili að eins vegna þess, hve sál hans er þreytt og vanmegna. Þess vegna vantar sannfæring, dýpt og kraft í það trúarlíf, sem hér er lýst. Hann fer úr klaustrinu í heimsókn til Íslands, áður en hann geri alvöru úr því, að helga sig munklífinu. Þegar heim kemur, er hann því sem næst hinn sami og áður, fullur hroka og mannfyrirlitningar. Efasemdir vakna að nýju í huga hans og konan freistar hans. En þó er minna stormasamt í sálarlífi hans en áður, ­ honum líður þolanlega. „Ef það er sannleikur, að maðurinn sé hinn sami í dag og í gær, þá er ekki til vægðarlausari sannleikur, en vonirnar um himnaríki fækka“, hugsar hann, og heldur svo áfram að þýða á íslenzku Imitatio christi, sem hann hafði byrjað á í klaustrinu.

Ást Diljár til hans blossar upp að nýju. Hún er nú gift Örnólfi föðurbróður hans, en hann er ytra þegar Steinn kemur heim. Diljá kemur til Steins að næturþeli og biður hann um ást hans, en hann talar við hana um guð og vísar henni grátinni á bug. Nokkrum dögum síðar fellur hann fyrir áleitni hennar, og er sæll á eftir, iðrast einskis. Hann er aftur áttavilltur í tilverunni, en án þess því fylgi nokkur hugsýki. Eftir að hann hefir aftur hitt ábótann, skriftað fyrir honum og þegið ráð hans og hughreysting, fer hann að nýju í klaustur. Diljá fer á eftir honum, til þess að helga honum líf sitt, og bíður hans eitt kvöld í klausturklefa hans í Róm. Hinn helgi maður tekur henni eins og innbrotsþjófi og vísar henni samstundis út. Hún grátbiður hann að fylgja sér, en hann leggst á bæn og ákallar drottin, rís síðan upp og kveður hana með þessum orðum: „Farðu og leitaðu Guðs, skapara þíns, því allt er blekking nema hann.“

Og skáldið skilur við Diljá, eina og yfirgefna, úti á götum Rómaborgar nístingskaldan morgun. Hún sezt niður á þrep gegnt Péturskirkjunni, en á forhlið hennar standa þessi frægu orð: TU ES PETRUS: ET SUPER HANC PETRAM EDIFICABO ECCLESIAM MEAM. „Það útleggst: Þú ert Steinn, og á þessum Steini mun ég reisa kirkju mína. ­ Fullkomnunarþrá hins ófullkomna er hinn jarðneski grundvöllur Drottins kirkju.“

Þannig lýkur sögunni.

Hefir þá Steinn Elliði fundið þá leið til fullkomnunar, sem hann heitast þráði, í meinlætalifnaði og guðsdýrkun innan klausturveggja? Í því síðasta, er af honum segir, skilnaði þeirra Diljár, virðist skáldið gefa í skyn að svo sé ­ en margur lesandi mun eiga bágt með að átta sig á því. Það verður ekki séð, að trúin hafi getað veitt honum nein svör eða skýringar, sem gætu sætt hann við alla þá ömurlegu vitneskju um líf og tilveru, sem áður ollu hugarstríði hans. Steinn Elliði hefur í sárri neyð gripið dauðahaldi í kaþólska trú, reynt að lifa sig inn í hinar einföldu, skilyrðislausu kenningar hennar og breyta eftir þeim. Hann hefir að minnsta kosti öðlazt viðfangsefni, sem stillir hug hans og beinir honum í ákveðna átt. Ef til vill dugir trúin honum sem deyfingarlyf gegn þjáningum sálarinnar, ef til vill stoðar guðsorðið, sem hann venur sig á að hugsa og tala, til þess að þagga niður allar spurningar, efasemdir, bölsýnishugleiðingar. Og í þeim friði, því öryggi, sem trúin þannig má veita, eru skilyrði til hugarfars- og viljalífsþroskunar, sem ef til vill veitir honum fullnægingu.

Annars endar bókin á spurningu, ­ endar sem byrjun. Hún er í heild sinni að eins kafli úr þroskasögu órólegs anda, kafli sem skáldið hefir kunnað að gera óvenju hugnæman og gefa almennt gildi. Því allir hugsandi menn hafa reynt eitthvað af innra stríði Steins Elliða.

En hann er frábrigði og einstæðingur fyrir sína eldheitu þrá eftir lífi í fegurð og þróun. Önnur meginöfl eðlis hans eru þessari þrá fjandsamleg, hún brýzt um og þjáist, rammfjötruð sjálfselsku og mannfyrirlitning, örmagnast aðra stundina en bugast aldrei nema í bili. Þannig er það brot úr mannsæfi, sem hér er lýst, að eins áfangi á löngum ferli þrauta og göfugrar baráttu.

Í því er fólgið dýpsta sorgarefni og sterkasta fegurð píslarsögu Steins Elliða.

K.A.