Í lifandi myndum

Halldór Kiljan Laxness í San Francisco

Halldór Laxness hafði lag á að vera þar sem hlutirnir voru að gerast og þegar hann ungur vildi skrifa kvikmyndahandrit og kynnast kvikmyndagerð lá leiðin til Hollywood. Þá stóð yfir mikið blómaskeið í kvikmyndaborginni. Þöglu myndirnar höfðu runnið sitt skeið og talmyndirnar voru að taka yfir og framundan var það sem síðan hefur verið kallað Gullöld Hollywood. Halldór kippti sér lítt upp við það og hafði mjög ákveðnar skoðanir á fánýti Hollywoodmynda eins og fram kemur í Alþýðubókinni: „Oft má sjá í blöðum okkar allharða dóma um leirburð og annan þvættíng sem ritaður er á Íslandi og gefinn út í bókaformi. En allur sá leirburður og þvættíngur sem birst hefur á íslensku í ræðu og riti frá landnámstíð er hégómi hjá þeirri stórframleiðslu á myndaleirburði er flæðir yfir land vort frá Ameríku. Í samanburði við amerískar kvikmyndir verður allur íslenskur leirburður gullaldarbókmenntir.“

Einn tilgangur Halldórs með dvölinni í Los Angeles var að skrifa kvikmyndahandrit og hann vann að tveimur í senn. Annað hét A Woman in Pants eða Kona á buxum, sem síðar varð skáldsaga og fékk heitið Salka Valka. Munaði litlu að myndin fengist gerð vestra eftir því sem Halldór sagði síðar í sjónvarpsviðtali en af því varð þó ekki. Salka Valka reyndist samt fyrsta skáldsaga Halldórs sem kvikmynduð var en þó ekki fyrr en tveimur áratugum eftir útkomu hennar. Íslendingar kunnu lítið fyrir sér í kvikmyndagerð langt fram eftir öldinni. Nokkur áhugi vaknaði á henni á þögla skeiðinu og um miðja öldina réðust menn í að gera leiknar íslenskar kvikmyndir kannski vegna áhrifa frá erlendri hersetu og straumi erlendra bíómynda í kvikmyndahúsin. Óskar Gíslason og Loftur Guðmundsson gerðu 16 mm leiknar myndir og kvikmyndafyrirtækið Edda film var stofnað. Það kom sér í samband við Nordisk Tonefilm í Stokkhólmi árið 1953 og úr varð að sænska fyrirtækið tók að sér gerð Sölku Völku og var kunnur sænskur leikstjóri, Arne Mattsson, ráðinn til að stýra henni. Kom kvikmyndahópur hans hingað til lands og filmaði mest í kringum Grindavík en myndin var frumsýnd árið 1954. Árið eftir hlaut Laxness Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Með aðalhlutverkin fóru Gunnel Broström, Folke Sundquist, Birgitta Pettersson og Erik Strandmark en kvikmyndatökumaður var Sven Nykvist. „Salka Valka er óvenjulega góð kvikmynd,“ var haft eftir Halldóri Laxness. „Í henni er ef til vill ýmislegt, sem kann að koma Íslendingi annarlega fyrir sjónir; en þess ber að gæta að hún er umfram allt sænsk kvikmynd og ég held ekki að sænsk kvikmyndalist hafi áður komizt hærra.“ Íslenskum gagnrýnendum þótti myndin góð landkynning en voru fljótir að benda á að hún væri alsænsk mynd sem í þokkabót skildi ekki þá séríslensku sögu sem hún byggði á. Má segja að hér á landi hafi myndin goldið nokkuð fyrir samanburðinn á bókinni.

Íslendingum tókst ekki að koma sér upp varanlegri kvikmyndagerð fyrr en undir 1980 en með stofnun ríkissjónvarpsins kom loksins aukin þekking og þjálfun í gerð leikinna mynda og verk Laxness rötuðu fljótlega á skjáinn. En rétt eins og í tilfelli Sölku Völku voru stórvirkin í sjónvarpi, tvær þáttaraðir byggðar á Brekkukotsannál og Paradísarheimt, unnin í samvinnu við erlenda kvikmyndagerðarmenn og stjórnað af þeim. Það fyrsta sem sjónvarpað var eftir Laxness var Jón í Brauðhúsum árið 1969, 23. mínútna einþáttungur með þeim Val Gíslasyni, Þorsteini Ö. Stephensen og Jónínu H. Jónsdóttur undir leikstjórn Baldvins Halldórssonar. Þremur árum síðar, í febrúar 1973, var Brekkukotsannáll frumsýndur í sjónvarpinu. Leikstjórinn Rolf Hädrich skrifaði handrit uppúr samnefndri bók Laxness og leikstýrði sjónvarpsmyndinni en um textaleikstjórn á íslensku sá Sveinn Einarsson. Myndin var gerð í sameiningu af Norddeutscher Rundfunk og íslenska, sænska, norska og danska sjónvarpinu. Hér var um viðamikið samstarfsverkefni að ræða og ekkert til sparað í búningum og leikmyndum svo framleiðslan mætti vera sem best úr garði gerð. Jón Laxdal fór með hlutverk Garðars Hólm, Þorsteinn Ö. Stephensen lék afann og Regína Þórðardóttir ömmuna en með önnur hlutverk fóru Þóra Borg, Róbert Arnfinnsson, Sigrún Hjálmtýsdóttir og Helgi Skúlason svo nokkrir séu nefndir. Sjálfur fór Halldór Laxness með ofurlítið hlutverk. Árið 1975 var sýnt sjónvarpsleikritið Veiðiför í óbyggðum, byggt á smásögu eftir Laxness. Helgi Skúlason var leikstjóri en með aðalhlutverkin í þessu klukkustundar langa verki fóru Gísli Halldórsson, Sveinbjörn Matthíasson, Margrét Helga Jóhannsdóttir og Saga Jónsdóttir. Árið 1978 voru tvö mjög ólík sjónvarpsverk byggð á verkum Laxness frumsýnd í sjónvarpinu. Það fyrra var Lilja, gerð eftir smásögu Halldórs, og voru handritshöfundar Hrafn Gunnlaugsson og Snorri Þórisson en Hrafn leikstýrði. Myndin var ekki nema 28 mín. að lengd og tókst giska vel í allri framkvæmd en með helstu hlutverk fóru Eyjólfur Bjarnason, Viðar Eggertsson, Sigurður Sigurjónsson, Ellen Gunnarsdóttir og Áróra Helgadóttir. Hið síðara var Silfurtunglið, sjónvarpsgerð Hrafns Gunnlaugssonar á samnefndu leikriti Laxness, sem vakti mikið umtal (það var endursýnt árið 1986 í styttri útgáfu). Eftirminnilegast úr þeirri uppfærslu er að líkindum söngur Sigrúnar Hjálmtýsdóttur (Hvert örstutt spor...) en með önnur hlutverk fóru Egill Ólafsson, Þórhallur Sigurðsson, Steindór Hjörleifsson og Björg Jónsdóttir. Þá var enn komið að þætti Rolf Hädrich sem stjórnaði gerð sjónvarpsmyndar í þremur hlutum uppúr Paradísarheimt árið 1980. Enn var í engu til sparað svo framleiðslan yrði sem vönduðust. Þættirnir voru sýndir yfir jólahátíðina það sama ár og voru gerðir mikið til af sömu aðilum og áður gerðu Brekkukotsannál. Framleiðendur voru Norddeutscher Rundfunk ásamt íslenska sjónvarpinu, norrænu sjónvarpsstöðvunum og svissneska sjónvarpinu og sem fyrr fór Jón Laxdal með aðalhlutverkið en með önnur hlutverk fóru Róbert Arnfinnsson, Fríða Gylfadóttir, Dietmar Schönherr, Gunnar Eyjólfsson, Helgi Skúlason, Helga Backmann, Anna Björns, María Guðmundsdóttir og Halla Linker svo nokkrir séu nefndir.

Um þetta leyti varð skipuleg íslensk kvikmyndagerð að veruleika og nokkrum árum síðar var fyrsta alíslenska bíómyndin gerð eftir einni af skáldsögum Halldórs Laxness. Það var Atómstöðin, sem frumsýnd var árið 1984 og sýnd m.a. á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Fóru Tinna Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eyjólfsson með aðalhlutverkin en myndin var gerð undir leikstjórn Þorsteins Jónssonar af miklum metnaði. Hún var kostnaðarsamari en aðrar íslenskar bíómyndir og mjög vönduð í ytra útliti, leikmyndum eftirstríðsáranna, búningum og endursköpun timabilsins. En kvikmyndagerðarmönnunum var nokkur vandi á höndum því sagan kannski frekar en aðrar eftir Laxness barn síns tíma og skrifuð í hita pólitískra átaka um miðja öldina. Þorsteinn sagði seinna í viðtali að hann og samstarfsmenn hans hefðu reynt að útskýra hvers vegna landið var selt og gerðu Uglu að fyrirferðarmestu persónu myndarinnar en kannski hefði Búi átt að vera það. „Þannig hefðum við nálgast kjarnann betur og fyrir bragðið varð myndin kannski dálítið aðgerðarlaus.“ Ekki sagði Þorsteinn að Halldór hefði haft afskipti af myndinni eða handritsgerðinni. „Hann las handritið yfir, en leit svo á að hann væri búinn að skrifa bókina og það væri okkar að túlka hana í kvikmynd. Hann bað okkur þó að fara mjúkum höndum um Bandaríkjamenn og atriðið um bein Jónasar Hallgrímssonar. Guðný Halldórsdóttir fékk smjörþefinn af kvikmyndagerð þegar hún starfaði með Hädrich áður og hún hafði skrifað handrit að íslenskum kvikmyndum áður en hún gerði Kristnihald undir jökli eftir síðustu skáldsögu föður síns. Kristnihaldið var fyrsta myndin sem Guðný leikstýrði. Það kom fram í sjónvarpsviðtali við Guðnýju fyrir skemmstu að faðir hennar hefði hvatt hana til þess að kvikmynda söguna. Leikstjórinn sagði í viðtali í Morgunblaðinu á sínum tíma að sér hefði alltaf þótt sagan skemmtileg og viðráðanleg til kvikmyndagerðar vegna þess hvernig hún er skrifuð. „Hún býður eiginlega uppá það að vera kvikmynduð.“ Myndin var tekin undir Snæfellsjökli og fór Baldvin Halldórsson með hlutverk Jóns Prímusar, Sigurður Sigurðarson lék Umba og Margrét Helga Jóhannsdóttir fór með hlutverk Úu. Kristnihaldið var frumsýnt árið 1989 og var ágætlega tekið og sagði í Morgunblaðinu að Guðnýju tækist að gera sögunni góð skil með skemmtilegum leikhópi. Þess má geta að Guðný undirbýr nú framleiðslu á mynd sem hún byggir á sögu Laxness, Úngfrúin góða og húsið. Áhrifa Halldórs gætir beint og óbeint í íslenskum kvikmyndum eins og í öðrum listum. Þegar Friðrik Þór Friðriksson var spurður að því í Morgunblaðinu áður en hann gerði Börn náttúrunnar, þá íslensku bíómynd sem farið hefur víðast, af hverju hann setti á hana þetta heiti en það er augljós skírskotun í Barn náttúrunnar, sagði hann: Laxness er örlagavaldur í lífi sérhvers Íslendings. Naumast var til íslensk kvikmyndagerð þann tíma sem Halldór skrifaði sín skáldverk og þau eru að mestu ónumið land íslenskum kvikmyndagerðarmönnum. Nú loksins þegar Íslendingar eru orðin kvikmyndaþjóð er tímabært að leita frekar í höfuðverk þessa örlagavalds þjóðarinnar. Betra efni í kvikmyndir er vandfundið. Og fátt er eins vandmeðfarið.

 

Eftir Arnald Indriðason