Halldór Laxness skrifaði vini sínum Einari Ól. Sveinssyni bréf hinn 17. apríl árið 1923 er Halldór dvaldi í klaustri í Lúxemborg.
Þar þakkar hann Einari Ólafi fyrir að hafa sent sér Heimskringlu Snorra Sturlusonar en sendingin verður honum tilefni til að víkja að íslenskum fornbókmenntum. Hann segist ekkert geta lært af þeim:
„Þessir gömlu karlar leggja mesta áhersluna einmitt á það sem nútíðarhöfundar leggja minsta á, nfl. að búa til kontúrur. Þeir eru allir í því að tína saman einhver hundleiðinleg facta, sem einga skepnu geta interesserað. Lísíngar á innhverfu atburðanna eru svo fágætar hjá þeim að þær hafa á mann sömu áhrif, ef maður rekst á þær sem óasi á mann sem ferðast í eiðimörk. Málið hjá þessum Snorra er sennilega ekki óviturlegt, það sem það nær, og góð íslenska. (Víða verður hann þó að grípa til erlendra orða.) En sem sagt: Það liggur á alt öðrum sviðum en okkar mál, og maðurinn hugsar með alt öðru vísi innréttuðum heila en nútíðarmenn, og interesserar sig firir altöðrum atburðum og hlutum en við (t.d. er hann mjög interesseraður firir því ef einhver konúngur gefur manni frakka eða hríng.) Ég held ifirleitt að ekki sé hægt að læra að skrifa nía íslensku af gamalli íslensku. Það þarf eitthvað annað. En sú íslenska sem við um þessar mundir höfum að vinna úr, er hreinasta viðurstigð að máli. Er á henni hinn sanni gelgjir og viðvinisbragur eins og ifirleitt á nútíðaríslendíngum, típunni og kúltúrnum, nefnilega þetta, að vera hvorki eitt né annað. Er mikil skömm að því hvað íslenska stendur að baki annarra norðurlandamála í ímsum stikkjum, ekki síst karlmensku. Svo hjartans innilega lángar mig til að verða maður til að skrifa massífa og kólossala íslensku, eins og til dæmis Grundtwig hefur skrifað massífa og kólossala dönsku. En líklega verð ég ekki maðurinn til þess, heldur einhver annar. Líklega endar það með, að ég skrifa á einhverju öðru máli, firir einhverja aðra þjóð, sem á mér eitthvað fleira sameiginlegt, en Íslendíngar.“
Halldór Laxness hélt hins vegar áfram að skrifa á íslensku fyrir Íslendinga - en um leið allan heiminn. Og í Íslandsklukkunni tók hann upp frásagnarhátt Íslendingasagna, þ.e. að lýsa öllu utan frá, og árið 1955 fékk hann Nóbelsverðlaunin í bókmenntum fyrir litríkan sagnaskáldskap sem endurnýjað hafði stórbrotna íslenska frásagnarlist.