Halldór Laxness ritaði athyglisverðan formála að Passíusálmum Hallgríms Péturssonar sem prentaður er í Vettvángi dagsins og út kom árið 1942.
Í formálanum segir hann meðal annars:
„Öll einstaklíngsstórvirki eiga sér lángan aðdraganda í menníngunni. Sérhvert tímabil leitar sem fullkomnastrar tjáningar á anda sínum, hugsun og tilfinníngu, uns það hefur fundið hana. Í Passíusálmum Hallgríms hefur 17. öldin tjáð insta eðli sitt á fullkomnastan hátt í skáldskap. Það er meira að segja vafasamt hvort Jesús-sögnin hefur nokkurstaðar verið betur tjáð í löndum hinnar þýsku endurlausnar en hjá Hallgrími Péturssyni. ...
Ófullkomleiki Passíusálma sem söguljóðs og drama liggur hinsvegar í því að höfundurinn hugsar sér að lesandinn viti bæði forsöguna og framhaldið, þekki hvað guðspjöllin herma um líf Jesú áður en hann kemur í grasgarðinn, og sömuleiðis fönixhlutverk hans, að rísa úr ösku sinni fegurri en áður, sem guðspjöllin tjá í sögunni um upprisu hans og himnaför. Það er þannig ekki hægt að kalla Passíusálma sjálfstætt drama, með því stígandin er ekki fullkomlega undirbúin innan verksins sjálfs og hinu raunrétta hámarki goðsagnarinnar um Jesú, upprisunni, slept. Venjulegur lesandi, sem geingi að lestri Passíusálma án forþekkíngar á kristnum dulfræðum, mundi óhjákvæmilega sakna samákvörðunarliða verksins. ...
Í þessari takmörkun verksins felst þó eingu að síður mikill styrkur. Með því að velja sér einmitt þennan afmarkaða þátt Jesú-sagnarinnar, sem stendur í hvað þreifanlegustu skyldleikasambandi við mannlegt líf aldarinnar, þjánínguna og mannlegu niðurlægíngu, hefur höfundurinn efni í höndum, sem er ekki aðeins gætt sterku hrifmagni vegna hins almenna gildis, heldur gerir það honum kleift að hafa uppistöðu sína sem einfaldasta, halda litblæ verksins sömum alt í gegn, einbeita huganum að einum meginkjarna. Það er þannig hvorki Jesús vizkunnar og göfginnar, né hinn sigrandi Jesús, sem birtist í Passíusálmum, heldur einvörðúngu Jesús þjáníngarinnar og niðurlægíngarinnar - með þeim einum hætti sem 17. öldin gat leyft sér að lýsa afdrifum hins guðumlíka meðal manna."