Ræða Péturs Gunnarssonar rithöfundar við opnun sýningarinnar ,,Að vera kjur eða fara burt?”

Sýningarskrá 

Barn náttúrunnar

„Maðkur!

„Aumlegi maðkur. Þarna liggurðu varnarlaus, þarna skríðurðu áfram með því að engjast sundur og saman!“

Sannarlega óvenjuleg byrjun á skáldverki! Venjan var að upphafssetningin slægi tóninn fyrir verkið allt og boðaði glæst framhald, soldið eins og Fimmta synfónía Bethovens: ba-ba-ba-bamm! En maðkur? var hægt að hugsa sér lítilmótlegra kvikyndi en þennan gúmmíbút sem skríður slímugur upp úr moldinni eftir skúr, hvorki með haus né hala, hvað þá augu nef eða munn, en kippist við ef maður kemur við hann og reynir þá að forða sér, við illan leik að sjálfsögðu þar sem hann er fótalaus, auðveld bráð fugla himins og hjólbarða malbiksins.

En ástarsagan hreif mig. Sagt var að hún væri stæling á Viktoríu eftir Hamsun, en bæði hafa verkin „ástarsögu“ að undirtitli. Hamsun var þá á hátindi frægðar sinnar, Nóbelsverðlaunin féllu honum í skaut árið 1920, ári eftir útkomu Barnsins. En ef Viktoría hefur haft áhrif á Barn náttúrunnar þá er það væntanlega með líkum hætti og Gróður jarðar á Sjálfstætt fólk, það er að segja með „andstæðum forteiknum“. Hulda í Barni náttúrunnar er hrein og klár andstæða hinnar dönnuðu og vel upp öldu Viktoríu, hún er náttúrubarn, hvorki skírð né fermd, sannkölluð villimey sem fer í loftköstum um fjöllin á skíðum á veturna, baðar sig allsber í ám og vötnum á sumrin og frílistar sig í útreiðartúrum um háannatímann á meðan aðrir eru í heyskap. Menn

og dýr og alveg sérstaklega karlmenn eru leikföng hennar. Hún gefur þeim undir fótinn og hryggbrýtur á víxl.

Viktoría þar á móti er fín dama sem hefur ekki í sér uppburði til að hlíta rödd hjartans og ganga að eiga malarasoninn Jóhannes sem hún elskar, en fólkinu hennar þykir of ættsmár. Missir fyrir vikið af honum, missir af lífinu, missir vitið og deyr. Í Barni náttúrunnar eru það vonbiðlar Huldu sem ganga af göflunum, sjálf gengur hún að endingu að eiga þann sem hún kýs – þótt mjóu hafi munað á tímabili.

***

Barn náttúrunnar, frumraun Halldórs Guðjónssonar frá Laxnesi sem hann sendi frá sér þegar hann var sautján ára – met sem mér vitanlega hefur ekki verið slegið enn - átti eftir að fylga honum ævina á enda. Hann er enn með hugann við Barnið í sínu hinsta verki, formála og eftirmála að Dögum hjá múnkum frá árinu 1987 þegar höfundurinn var hálf-níræður. Þar gefur hann í skyn að hann hafi í raun verið landflótta undan þessu æskuverki sínu þegar hann hleypti heimdraganum aðeins nítján ára gamall síðsumars árið 1919. Sem fær stuðning í Guðsgjafaþulu, lítt dulbúinni ævisögu frá árinu 1972 þegar Halldór stóð á sjötugu. Þar segir frá ungum rithöfundi sem lendir í því að gefa út skáldsögu, Guðina í Hjúagerði, sem „fór alveg með mig sem rithöfund á Íslandi um lángan tíma sem margan rekur minni til. Það líða kanski fimm ár eða meira þángaðtil bók er gleymd og höfundurinn hefur náð mannorði sínu aftur; sumir ná því aldrei ...“1

Hyggjum nánar að þessu. Faðir Halldórs deyr þetta sama sumar, nánar tiltekið 19.júní 1919. Móðir hans stendur uppi ekkja með búið í Laxnesi, tvær kornungar dætur og einkasoninn Halldór. Halldór er einn skrifaður fyrir dánartilkynningunni sem Morgunblaðið birti og telst samkvæmt því vera höfuð fjölskyldunnar. En bar honum þá ekki að fresta utanför og vera móður sinni til halds og trausts? Í stað þess

að auka á áhyggjur hennar, tilfinningalegar og fjárhagslegar, með því að stökkva út í heim sem árið 1919 var svo miklu stærri en hinn lófastóri heimur okkar. Bara siglingin til Hafnar tók fimm sólarhringa, enda tíðkaðist ekki að fara erindisleysu út fyrir landsteinana, menn voru ýmist í viðskiftaerindum eða á leið í nám eða að leita sér lækninga. Ekkert af þessu átti við Halldór, í augum samfarþega á hinu danska Ms Íslandi var hann á flótta undan skyldum sínum við skóla- og fjölskyldu, enda myndaðist um hann tómarúm hvar sem hann birtist á þilfari eða í matsal.

Var ekki líka alveg glórulaust að láta sig hverfa þegar bókin var rétt ókomin úr prentverki? Bar honum ekki að vera viðstaddur fæðinguna, láta hafa við sig viðtöl, hjálpa til við dreifingu? Meira að segja á okkar tímum þegar allir eru súrraðir saman á einum skjá, þykir ekki góð latína ef höfundur er ekki viðstaddur útgáfu bókar, tilbúinn í viðtöl, áritanir, upplestra á Elliheimilum og Kiwanis-klúbbum, boðinn og búinn að afgreiða á jólamörkuðum.

Reyndar var Halldór sjálfur útgefandi Barns náttúrunnar, á titilsíðu stendur: „Á kostnað höfundar“, en hefði í raun átt að standa „Á kostnað mömmu“, því það var auðvitað hún sem lagði út fyrir kostnaði og stofnaði við það til skulda sem áttu eftir að fylgja henni þar til prentsmiðjan hætti að rukka.

En kannski hefur hann talið ráðlegra að vera ekki nærri þegar dómar tækju að birtast, samanber hauskúpudóm Jóns Björnssonar í Morgunblaðinu fljótlega eftir að bókin kom út. Skrítið að Jón skyldi reiða svo hátt til höggs þegar haft er í huga að þetta var frumraun unglings. En kann að skýrast af því að skömmu áður hafði blaðið birt mikinn langhund eftir Kristján Albertsson, sem var í þann mund að hasla sér völl sem beittasti penni landsins, þar sem hann deilir á íslenska ritdómara fyrir kröfuleysi þeirra gagnvart íslenskum rithöfundum sem keyri alveg um þverbak þegar byrjendur eigi í hlut.

„Pár unglingsins, sem er að byrja að draga til stafs, nýtur sérstaklega verndar hinna óskrifuðu friðunarlaga, - þá dekra ritdómararnir við á allar lundir. Stundum verður þetta svo ógeðslegt að það minnir á flaður, tilburði og kuteisisöfgar erlendra knæpuþjóna ...“ segir þar.

Og Jón Björnsson gegnir kalli þegar hann segir um Barn náttúrunnar:

„Sagan er að efni til frámunalega lítils virði. Höfundi tekst ekki að sýna neitt, sem getur lifað eða geymst. Og búningur þessa efnis er því fyllilega samræmur. [...] Þroskaleysið og barnið skín alstaðar úr hverri hugsun og hverri setningu. Kröfur listamannsins til verks síns blunda enn. Og skáldeðlið sýnist vera takmarkað.“ O.s.frv.

***

Eigið mat Halldórs á verkinu var ekki alltaf á eina lund. Þannig segir í formála að endurútgáfunni árið 1964, 45 árum eftir frumbirtingu, að ekki aðeins megi finna í Barni náttúrunnar summu og þversummu alls sem hann skrifaði síðar, það muni einnig vera hans besta bók, hvorki meira né minna.

Paradoxal-stíllinn eina ferðina enn, hugsum við, eða hvað? Enginn íslenskur höfundur, að höfundum Íslendingasagna frádregnum, hefur skapað eins mikið af lifandi karakterum og Halldór. Og þar eru konurnar áberandi, þær bókstaflega þyrpast fram á sviðið: Salka Valka, Ásta Sóllilja, Snæfríður Íslandssól, Ugla, Úa ... að ógleymdri sjálfri frumkonunni, Huldu í Barni náttúrunnar, þessari femme fatale sveitarinnar. Og orð hans um summu og þversummu hljóta óvænta staðfestingu í hans síðustu eiginlegu skáldsögu: Kristnihaldi undir Jökli. Á það einkum við um ómótstæðilegt aðdráttarafl þeirra Huldu og Úu og móral í kynferðismálum sem tekur mið af býflugunni þar sem hún flögrar blóm af blómi.

„Sá guð er hræðilegur sem hefur skapað kvenmann eins og Úu“ segir Goodman Syngman í Kristnihaldinu og kallast á við lýsingu föður Huldu á dóttur sinni:

„Þekkirðu ekki bandóða villidýrið, sem hremmir bráð sína á hlaupum og tætir hana í trefjar að eins til að seðja með græðgi sína, en skilur svo beinin eftir, - að eins köld og visin beinin ...“2

Og líkindin má finna víðar, þið munið hvernig Kristnihaldið endar, Umbi fylgir Úu heim í sveitina í heimsókn á æskuslóðir. Í sumum drögum Kristnihaldsins fara þau m.a.s. að búa í sveit, en sá er einmitt endir á Barni náttúrunnar, Randver og Hulda gerast bændur og taka til við að yrkja jörðina à la Tolstoj. Meira að segja setningin fræga úr munni Jóns Prímusar: „Sá sem lifir ekki í skáldskap, lifir ekki af á þessu jarðríki“ hljómar að breyttu breytanda í Barni náttúrunnar:

„Dáið er allt án drauma/og dapur heimurinn“.

***

Salka Valka og Heimsljós stóðu hlið við hlið í bókaskápnum heima, en Barn náttúrunnar hafði dottið út úr röðinni þegar hún datt í sundur og hafnaði í kjölfarið í ruslakompunni uppi á háalofti. En ruslakompan var einmitt leikvöllur okkar krakkanna, svo lágt undir loft að fullorðnum var bannaður aðgangur, en börn gátu setið flötum beinum. Og þar barst hún mér í hendur og öðlaðist þann sess í huga mér að ég lét binda hana inn fyrir fermingarpeningana.

„Bækur eiga sér örlög“ segir málshátturinn og eins og ánamaðkurinn geta þær haldið áfram þótt þær detti í sundur. Og hér er hún lifandi komin, frumútgáfan er í fremur litlu broti, 17 ½ x 11 cm, litlu stærri en snjallsími og kostar, ef marka má verðskrá fornbókasalans, á við einn slíkan. En um örlög snjallsímans eftir hundrað ár treysti ég mér ekki til að spá.

Að lokum þetta: bókin er huganum jafn nauðsynleg og maðkurinn moldinni, án þeirra ná innlöndin ekki að anda. En um bækur Halldórs má að breyttu breytanda hafa lokaorð Uglu í Atómstöðinni:

„Hvers virði hefði mér þótt að lifa ef ekki hefðu verið þessar bækur.“