Heimildarmynd, hlaðvarp, safnið í þrívídd og upplestur skáldsins

31/03 2021

Ljósmynd: Einar Falur Ingólfsson 

Þó ekki sé hægt að bjóða gestum heim í hús skáldsins um þessar mundir er safnið opið upp á gátt á netinu og þar er um auðugan garð að gresja. 
Á heimasíðu safnsins er meðal annars hægt að skoða Gljúfrastein í þrívídd og njóta þess að hlusta á Hamrahlíðakórinn syngja Hjá lygnri móðu. Það var í byrjun apríl í fyrra sem sú hugmynd kviknaði að sýna safnið með þessum hætti til að gleðja fólk þegar samkomubann var í gildi. 

Þá er hægt að hlusta á hlaðvarpsseríu Gljúfrasteins Með Laxness á heilanum,  þar er rætt við fólk sem er hugfangið af verkum Halldórs Laxness og hugmyndum hans um líf og tilveru. Þættirnir eru á Spotify.

Í nágrenni Gljúfrasteins eru margar fallegar gönguleiðir meðal annars upp með ánni Köldukvísl að Helgufossi en sú leið hefur verið mjög vinsæl síðustu misseri. Hér er kort sem sýnir gönguleiðir í dalnum 


Heimildarmynd um skáldið 

Kvikmyndasafn Íslands býður upp á mikið af einstöku myndefni á streymisvefnum Ísland á filmu.
Nýlega var þar birt heimildarmynd um Halldór Laxness frá árinu 1962. Leikstjóri hennar er Ósvald Knudsen en textann skrifaði Kristján Eldjárn sem einnig er þulur myndarinnar. Í henni er meðal annars skyggnst á bak við tjöldin í lífi Halldórs, Auðar og dætra þeirra Sigríðar og Guðnýjar og gefur að líta mörg myndskeið sem ekki hafa sést í öðrum myndum eða fréttum af Halldóri Laxness.
Á streymisvefnum má einnig sjá brot úr ávarpi Halldórs Laxness á þjóðhátíð á Þingvöllum árið 1974 og upptöku af því þegar Halldór heimsótti Ásmund Sveinsson listamann á vinnustofu hans í Sigtúni árið 1965. 

Þar er einnig myndskeið frá því Halldór tók við Nóbelsverðlaununum í Stokkhólmi þann 10. desember árið 1955.  Hér að neðan er brot úr þakkarræðu hans:
,,Ég hugsaði einmitt til þeirra undursamlegu manna og kvenna þjóðdjúpsins, sem veittu mér fóstur. Ég hugsaði til föður míns og móður minnar,  og ég hugsaði sér í lagi til hennar ömmu minnar gömlu, sem var búin að kenna mér ótal vísur úr fornöld áður en ég lærði að lesa. Ég hugsaði og hugsa enn á þessari stundu til þeirra heilræða sem hún innrætti mér barni: að gera öngri skepnu mein, að lifa svo að jafnan skipuðu öndvegi í huga mér þeir menn sem kallaðir eru snauðir og litlir fyrir sér, að gleyma aldrei, að þeir, sem hafa verið beittir órétti eða farið góðra hluta á mis, þeir sem hafa verið settir hjá í tilverunni, einmitt þeir væru mennirnir, sem ættu skilið alúð, ást og virðingu fólksins umfram aðra menn hér á Íslandi.” 

Hér á heimasíðu safnsins má lesa alla þakkarræðuna en Ríkisútvarpið útvarpaði beint frá atburðinum.   


Halldór les fyrir þjóðina   

Allir upplestrar Halldórs Laxness sem varðveittir eru í safni RÚV hafa verið aðgengilegir í spilara RÚV á netinu frá því í desember síðastliðnum.  Tilefnið var 90 ára afmæli RÚV í lok síðasta árs. Þá var ákveðið að færa þjóðinni lestra Halldórs Laxness að gjöf í samstarfi við dætur hans þær Guðnýju og Sigríði Halldórsdætur. Þetta eru afar ánægjuleg tíðindi og ljóst að gjöfin mun halda áfram að gleðja hlustendur. 

Meðal bóka sem nú er hægt að hlusta á nóbelskáldið lesa í spilara RÚV eru GerplaBrekkukotsannáll, Í túninu heimaParadísarheimtKristnihald undir Jökli, Atómstöðin og Innansveitarkronika.
Þá er einnig hægt að hlýða á Halldór lesa nokkur ljóð sem hann samdi og ljóðaþýðingar. Einnig Passíusálmana og Birtíng eftir Voltaire sem hann þýddi og kom út hér á landi árið 1945. Í spilara RÚV er líka hægt að hlusta á Halldór Laxness lesa grein sína Hernaðurinn gegn landinu.  

 

RÚV sýndi kvikmyndina Sölku Völku á dögunum og verður hún aðgengilega í spilaranum til 21. apríl næstkomandi. Myndin er frá árinu 1954 og er byggð á samnefndri skáldsögu Halldórs Laxness.