Úkraínskir gestir á Gljúfrasteini í tilefni af útkomu nýrrar bókar um Laxness

05/08 2024

Volodymyr Hladyshev ásamt Erlu Elíasdóttur Völudóttur, starfsmanni Gljúfrasteins og þýðanda, og Guðnýju Dóru Gestsdóttur safnstjóra.

Verk Halldórs Laxness halda áfram að hafa áhrif víða um heim og nú hafa tveir fræðimenn frá Mykolajív í Úkraínu, Volodymyr Hladyshev og Vasyl Shuliar, gefið út bók þar sem þeir greina og bera saman tvær smásögur: „Gamli maðurinn Hryts“ eftir úkraínska höfundinn Vasyl Stefanyk og „Fugl á garðstaurnum“ eftir Laxness. Texti bókarinnar er á úkraínsku en inngangur, formáli og eftirmáli eru einnig í enskri og íslenskri þýðingu.

Bókin er hugsuð sem kennslugagn fyrir úkraínskumælandi nemendur en þeir Hladyshev og Shuliar líta einnig á ritið sem vitnisburð um vináttu þjóðanna tveggja. Í inngangi bókarinnar segir að höfundarnir nýti smásögurnar tvær sem útgangspunkt til að kafa „í uppbyggingu tveggja þjóða sem við fyrstu sýn eru ólíkar, með ólíka menningu og þjóðernisvitund, en sem deila þó ýmsum gildum, viðhorfum og áþreifanlegum aðgerðum sem miða að því að efla lönd þeirra og borgararéttindi þar.“

Volodymyr Hladyshev, annar af höfundum bókarinnar, er nú staddur á Íslandi ásamt eiginkonu sinni Svitlönu Hladyshevu sálfræðingi en dóttir hennar, Olga Prudnykova, hefur búið hér ásamt fjölskyldu sinni undanfarin tvö ár og varð Íslandsmeistari í skák árið 2023. Fjölskyldan nýtti tækifærið til að heimsækja Gljúfrastein og færa safninu eintak af bókinni.