Glódís M Guðmundsdóttir lék Schubert

Glódís M. Guðmundsdóttir

Glódís M. Guðmundsdóttir kom fram á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 20. júlí. Hún flutti píanósónötu í A - dúr eftir Franz Schubert.

Glódís er fædd árið 1990. Átta ára gömul hóf hún píanónám í Tónlistarskóla Rangæinga. Kennari hennar þar var Hédi Maróti. Glódís útskrifaðist frá Tónlistarskóla Rangæinga vorið 2010 og  hélt hún burtfarartónleika í Selinu á Stokkalæk og hlaut einkunnina 9.5 fyrir. Síðan þá hefur hún reglulega komið fram í Selinu sem einleikari. Glódís hóf nám í Listaháskóla Íslands haustið 2010 þar sem hún hefur lært síðan undir leiðsögn Peter Máté. Hún hélt útskriftartónleika sína frá Listaháskólanum í desember 2013 og útskrifaðist formlega frá skólanum núna í vor. Á útskriftartónleikunum spilaði Glódís meðal annars tvær ballöður eftir Chopin, Etýður eftir Rachmaninoff og Píanókvartett eftir Mahler. Í sumar tók hún þátt í Píanókeppni Norðurlandanna í Danmörku og tónlistarhátíðinni Casalmaggiore Music Festival á Ítalíu þar sem hún kom fram sem einleikari.

Um verkið: Á síðustu mánuðum ævi sinnar var Schubert mjög veikburða og vissi að hann ætti skammt eftir. Það var þá sem hann hóf að semja margar af sínum allra fallegustu tónsmíðum, sem voru ekki gefnar út fyrr en eftir honum látnum. Þrjár mikilfenglegar sónötur voru síðustu verkin sem Franz Schubert samdi fyrir píanó, D958, 959 og 960. Þessar sónötur bera að mörgu leyti af verkum hans, en þær tjá afar einstaka dýpt.

Fyrsti kaflinn, Allegro hefst á dramatískum og tignarlegum hljómum sem saman mynda fyrsta tema kaflans. Annað tema er blíðara og minnir helst á sönglög Schuberts. Kaflinn endar á eins konar niðurlagi (coda) sem gefur hikandi og blíðari mynd af fyrsta temanu.

Annan kafla, Andantino í fís-moll, má líta á sem þungamiðju sónötunnar. Hann er í A-B-A formi þar sem A kaflinn gefur tilfinningu fyrir stöðugri ólgu undir annars rólegu og syrgjandi stefi. Ólgan springur svo út í B-kaflanum þar sem tónlistin hreinlega missir alla stjórn í ákafa og heift. Þessir tveir kaflar mynda miklar andstæður, annars vegar milli friðsældar og ofsa og hins vegar milli þess rökrétta og óra. Margir vilja meina að í þessum kafla hafi Schubert verið að túlka hve berskjaldað mannkynið er gagnvart yfirvöldum, stríði og þeim mikla harm sem fylgir styrjöldum.

Þriðji kafli, Scherzo kemur þá sem léttur andblær í kjölfarið, leiftrandi af húmor og gleði. Stöku sinnum fáum við þó að heyra vitnanir í harmleik Andantino-kaflans, en sorgin víkur þó alltaf fyrir fögnuðinum að lokum.

Fjórði kafli hefst á himneskri laglínu sem iðar af lýrík og söng. Laglínan birtist í mörgum útgáfum í kaflanum, oft brotin upp í smærri einingar með mikilli eftirvæntingu, þá sérstaklega við lok kaflans. Að lokum endar sónatan á áköfu og spennandi niðurlagi þar sem upphaf fyrsta kafla hljómar aftur í breyttri mynd og rammar þannig inn sónötuna í heild.