Grieg, Scarlatti og íslensk þjóðlög

Richard Simm spilar á fjórðu stofutónleikum sumarsins, 24. júní.

Ljúfir tónar fengu að hljóma úr flyglinum á Gljúfrasteini þann 24. júní þegar Richard Simm spilaði á fjórðu stofutónleikum sumarsins. Hann lék verk eftir Scarlatti, Grieg og einnig eigin útsetningar á vinsælum íslenskum þjóðlögum.

Richard Simm fæddist á Englandi og vakti athygli sextán ára gamall með leik sínum á píanókonsert nr.1 eftir Liszt. Hann nam við Royal College of Music í London hjá Bernard Roberts og við Staatliche Hochschule für Musik í München hjá Erik Then-Bergh. Hann vann til margra verðlauna á námsárum sínum, fékk þ.á.m. tvenn verðlaun fyrir túlkun sína á verkum Chopin. Árið 1969 tók hann þátt í þekktri alþjóðlegri píanókeppni í Leeds og var eini breski keppandinn er vann til verðlauna. Richard hefur haldið tónleika í Wigmore Hall og Purcell Room í London, auk þess að hafa komið fram á fjölda tónleika í Þýzkalandi, í Bandaríkjunum og á Íslandi. Hann var fastráðinn í níu ár sem píanóleikari og kennari við Háskólann í Wales og gestaprófessor við Illinois Háskólann í þrjú ár. Hann hefur unnið til ýmissa verðlauna fyrir útsetningar sínar á verkum fyrir tvö píanó, þ.á.m. átta sinnum verðlaun American Society of Composers Authors and Publishers. Þessi verk voru gefin út af Warner Bros. Frá því að hann settist að á Íslandi árið 1989 hefur Richard komið fram með mörgum helstu tónlistarmönnum landsins og einnig leikið Rachmaninoff píanókonsert með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Á Listahátíð í Reykjavík 2006 lék hann Fantasiestücke, Op.12 eftir Schumann. Hann hefur unnið með Rut Ingólfsdóttur síðan 2001 og hafa þau kynnt íslensk verk fyrir fiðlu og píanó í Tokyo, Paris, Brussel,  Beijing, Lanzhou og Róm.  Richard Simm starfar nú sem píanóleikari við Listaháskóla íslands, býr í Reykjavík og er kvæntur íslenskri konu sem einnig starfar við tónlist.

Hér fyrir neðan má finna dagskrá stofutónleikanna í sumar


Stofutónleikar Gljúfrasteins 2012