Vio, Dísurnar og franskt fínerí á stofutónleikum sumarsins 2015

31/05 2015

Tónleikagestir og flytjendur á stofutónleikum á Gljúfrasteini. Á ljósmyndinni sjást meðal annarra Þórbergur Þórðarson rithöfundur og kona hans Margrét Jónsdóttir lengst til hægri og húsráðendur á Gljúfrasteini Auður Sveinsdóttir fjórða frá hægri og Halldór Laxness annar frá vinstri.

Tindatríóið kemur fram ásamt Arnhildi Valgarðsdóttur píanóleikara á fyrstu stofutónleikum sumarins sunnudaginn 7. júní.

Níu ár eru liðin síðan stofutónleikaröð Gljúfrasteins hóf göngu sína en það voru þær Anna Guðný Guðmundsdóttir og Sigrún Hjálmtýsdóttir sem fyrst komu fram á vegum tónleikaraðarinnar sunnudaginn 5. júní árið 2006. Fjöldi tónlistarmanna hefur komið fram í stofunni síðan en allt frá því að hjónin Halldór Laxness og Auður Sveinsdóttir hófu búskap á Gljúfrasteini árið 1945 hefur stofan verið vettvangur fyrir tónlistarmenn innlenda sem erlenda.

Tónlistarráðunautur tónleikaraðarinnar hefur frá upphafi verið Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari. Í ár verður boðið upp á samtals þrettán tónleika af ýmsu tagi í flutningi yfir tuttugu tónlistarmanna. Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir klukkan 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.