Trítlað um móa í Mosfellsdal

02/09 2014

Halldór Laxness í einni af mörgum gönguferðum sínum um Mosfellsdalinn.

Ferðafélag barnanna í samstarfi við Vinafélag Gljúfrasteins býður upp á skemmtilega gönguferð næsta sunnudag, 7. september. Gangan hefst kl. 11 og hentar jafnt ungum sem öldnum.

Gengið verður meðfram Köldukvísl að Helgufossi og til baka. Á leiðinni verður gengið í gegnum rómað berjaland þar sem ekki er ólíklegt að berin bíði bústin á lyngi.

Halldór Laxness fór daglega í gönguferðir í nágrenni Gljúfrasteins. Gönguferðirnar voru honum uppspretta hugmynda. Hvað skyldi okkur detta í hug á leiðinni?

Í lok göngu er hægt að heimsækja Gljúfrastein. Þetta er upplagt tækifæri til að kynna skáldið og húsið fyrir yngstu kynslóðinni. Gönguferð og heimsókn á safnið tekur um það bil 3 klukkustundir.

Leiðsögumenn í ferðinni eru Páll Guðmundsson og Auður Kjartansdóttir.

Ferðin er ókeypis og allir velkomnir.

Gestir eru hvattir til að nota bílastæðið framan við Jónstótt við gömlu brúna yfir Köldukvísl. Þá er keyrt upp síðasta afleggjarann áður en komið er að Gljúfrasteini, við græna strætóbiðskýlið í Mosfellsdal á móti hestaleigunni í Laxnesi.