Íslensku þýðingaverðlaunin

27/04 2014

Forseti Íslands afhendir Ingibjörgu Haraldsdóttur Íslensku þýðingaverðlaunin 23. apríl 2005.

Íslensku þýðingaverðlaunin hafa verið afhent árlega frá því árið 2005. Bandalag þýðenda og túlka stendur að verðlaununum en þau eru liður í því að vekja athygli á og hefja til virðingar hið oft vanmetna starf þýðandans, sem opnar með þýðingum sínum heilli þjóð dyr inn í menningarheima sem annars hefðu verið lokaðir öllum nema örfáum.

Verðlaunin eru afhent ár hvert þann 23. apríl. Sú dagsetning er engin tilviljun enda er það hinn alþjóðlegi Dagur bókarinnar sem og fæðingardagur Halldórs Laxness. Þar sem starf þýðandans er oft ekki metið að verðleikum vill það oft gleymast að Halldór skrifaði ekki einungis fjölda bóka heldur þýddi hann líka erlend skáldverk. Þekktasta þýðing hans er án vafa Birtíngur eftir Voltaire, en sú þýðing þykir einkar snjöll.

Fyrsti handhafi Íslensku þýðingaverðlaunanna var Ingibjörg Haraldsdóttir sem hlaut þau fyrir þýðingu sína á Fjárhættuspilaranum eftir Fjodor Dostojevskí.

Hér á vefnum má nú finna upplýsingar og myndir af handhöfum verðlaunanna frá upphafi.