Opið á Gljúfrasteini alla daga í sumar

29/05 2020

Starfsfólk Gljúfrasteins tekur vel á móti gestum og gangandi í allt sumar frá kl. 10 – 17.

Vakin er athygli gesta á glæsilegum bæklingi um hönnunar- og listmuni á Gljúfrasteini. Þar segir, Dr. Arndís S. Árnadóttir, frá nútímaheimilinu á Gljúfrasteini í greinargóðum texta. Bæklingurinn inniheldur fjölmargar myndir af húsmunum og listaverkum með skýringartextum, ásamt grunnteikningu af neðri hæð hússins sem sýnir niðurröðun húsgagna. Með bæklingnum er dregið fram í sviðsljósið það norræna handverk sem einkennir húsgögn og aðra muni heimilisins að Gljúfrasteini, sem og þau fjölmörgu málverk, hannyrðir og önnur listaverk sem prýða veggi hússins.

Garðurinn umhverfis húsið ávallt opinn almenningi. Margar fallegar gönguleiðir eru í nágrenni Gljúfrasteins til dæmis upp með ánni Köldukvísl að Helgufossi og að eyðibýlinu Bringum.
Kort af svæðinu 

Hægt er að fá kort sem sýnir helstu gönguleiðirnar í safnbúðinni á Gljúfrasteini og þar er einnig að finna helstu bækur Halldórs Laxness sem og ýmsa minjagripi, póstkort, bókamerki og blýanta merkta safninu. Einnig minnisbækur með munstrinu fræga sem prýddi flestar bækur Halldórs, útsaumsuppskrift að púðanum Landaparís sem Auður Laxness hannaði, veggspjöld með myndum úr Barni náttúrunnar, fyrstu skáldsögu Halldórs Laxness og stuttermaboli með tilvitnun í Heimsljós.  

Hinir árlegu sumartónleikar fara að venju fram alla sunnudaga í stofunni á Gljúfrasteini. þeir hefjast að þessu sinni í júlí. Dagskrá stofutónleika sumarsins 2020 verður birt á heimasíðu Gljúfrasteins og á Facebook innan tíðar.