Munnleg saga og heimsókn Halldórs Laxness í Verzlunarskóla Íslands

06/10 2011

Halldór á vinnustofu sinni að Gljúfrasteini skömmu eftir að hann og Auður kona hans fluttu þangað 1945. Halldór skrifaði á hverjum degi, hóf vinnu um hálftíuleytið og stóð þá iðulega við púlt á vinnustofu sinni.

Safnastarfið á Gljúfrasteini er margvíslegt. Gljúfrasteinn varðveitir bæði heimili og bækur Halldórs Kiljans Laxness og miðlar þekkingu um skáldið og ritverk hans til þeirra gesta sem heimsækja safnið. Gljúfrasteinn heldur utan um gögn og muni frá Halldóri og fjölskyldu hans og leitast við að safna munum, ljósmyndum og nýjum upplýsingum um hann.

Einn hluti af starfi Gljúfrasteins er söfnun munnlegrar sögu og er í því starfi stuðst við leiðbeiningar frá Miðstöð munnlegrar sögu. Markmið söfnunar munnlegrar sögu á Gljúfrasteini er að dýpka þekkingu á ævi og verkum Halldórs Laxness; að safna heimildum um Halldór Laxness frá samtíðarmönnum hans; að safna öllu sem viðkemur sögu Gljúfrasteins.

Nýverið barst ritgerð frá kennara við Verzlunarskóla Íslands. Einn nemandi hans á síðasta ári tók viðtal við föður sinn Má Gunnarsson, sem hafði verið nemandi í skólanum 1959-1965. Í viðtalinu rifjar faðir hans upp heimsókn Halldórs Laxness í Verzlunarskólann.

-En hvernig var félagslífið í lærdómsdeildinni?

„Það var ekki mjög mikið þar en vissulega tóku þeir nemendur þátt í almennu félagslífi  skólans“, segir Már en til að bæta úr skák ákváðu þau í bekknum að stofna sinn eigin bókmenntaklúbb til að lyfta félagslífi þeirra á aðeins hærra plan. Hann segir að þau hafi meðal annars fengið Halldór Kiljan Laxness til fundar við sig og það kom í hlut Más að hafa uppi á honum og sjá hvort hann væri ekki til í að mæta og spjalla við þau. „Þarna var hann orðinn heimsfrægur og ekkert auðhlaupið að fá hann til að hitta okkur. Þegar ég bar upp við hann erindið þá sagði hann: „Ef ég mæti á allar þessar uppákomur sem mér er boðið á, þá hef ég engan tíma til að skrifa.“ En hann féllst á að koma og heimsækja okkur bekkinn,“ segir Már.

Halldór las upp úr verkum sínum og sagði bekknum reynslusögur. Hann sagði þeim frá því, að þegar hann fékk Nóbelsverðlaunin þá fékk hann helling af heillaskeytum og hamingjuóskum - en eitt bréf stóð upp úr að mati Halldórs og þótti honum vænt um. „Það var frá klóakmönnunum í Stokkhólmi. Halldór var þá spurður að því hvort kanaútvarp og sjónvarp (sem var sent út á þessum árum) hefði slæm áhrif á íslenska tungu. Hann svaraði þessu með dæmisögu: Það var prestur norður í landi sem eignaðist rándýran skósíðan leðurfrakka og þegar hann reið um sveitirnar þá þeystist hann yfir mýrarnar svo að mýrarrauðinn skvettist upp á frakkann og þegar hann var spurður að því hvort þetta færi ekki illa með frakkann fína þá sagði hann: þetta er svo dýr og fínn frakki að hann þolir allt“ segir Már brosandi og bætir við „Þessu gleymi ég aldrei.“

Ritgerðina skrifaði Styrmir Másson í íslensku. Gljúfrasteinn hvetur alla sem hafa sögur að segja um Halldór eða Gljúfrastein að hafa samband við safnið og deila þeim með okkur.