Mosfellsbær býður í bíó í kvöld

27/04 2012

Úr kvikmyndinni Paradísarheimt

Nú eru síðustu forvöð að skella sér á Laxness í lifandi myndum í Bíó Paradís. Það eru aðeins tvö sýningarkvöld eftir.

Klukkan 17:30 í dag, föstudag, verða Silfurtunglið og Lilja sýndar og klukkan 20 býður Mosfellsbær í bíó.

Mosfellsbær á 25 ára afmæli í ár og að því tilefni hefur bærinn í samvinnu við Gljúfrastein ákveðið að bjóða Mosfellingum og öðrum sem þess óska frítt í bíó á Paradísarheimt klukkan 20.

Hægt er að sækja miða á Paradísarheimt í þjónustuver Mosfellsbæjar – en einnig í miðasölu Bíó Paradísar.  Vonandi verður svo mikil aðsókn að uppselt verði á sýninguna, en fyrstir koma – fyrstir fá.

Á laugardaginn 28. apríl verður Atómstöðin sýnd klukkan 18. Þess má geta að hún er með frönskum texta.

Lokamynd hátíðarinnar verður Brekkukotsannáll klukkan 20 á laugardaginn. Brekkukotsannáll fékk einróma lof frá sýningargestum sem sáu hana á mánudaginn svo nú er um að gera að nýta þetta einstaka tækifæri til þess að sjá myndina í lit og á hvíta tjaldinu.

Kvikmyndir eftir verkum Halldórs Laxness hafa verið til sýninga í Bíó Paradís frá því á mánudag. Hér má sjá heildardagskrána.

Hægt er að nálgast miða á midi.is (á allar sýningarnar nema boðssýninguna á Paradísarheimt) eða í Bíó Paradís eftir klukkan 17.