Margnota, sveigjanlegt og lifandi menningarsetur

06/06 2019

Gljúfrasteinn séður frá Jónstótt 

Þrjú ár eru um þessar mundir frá því að Alþingi samþykkti að fela menntamálaráðherra að hefja uppbyggingu við Gljúfrastein. Í framhaldinu skipaði ráðherra starfshóp sem skilaði skýrslu til mennta- og menningarmálaráðuneytisins í október 2017.  Starfshópurinn hafði það hlutverk að fara yfir fyrirliggjandi gögn um hugmyndir um byggingu Laxnessseturs og endurmeta þau með vísan til þingsályktunartillögunnar og jafnframt að gera tillögur um næstu skref. Hópurinn skilaði af sér skýrslu og þarfagreiningu um viðbótarhúsnæði safnsins á Gljúfrasteini.
Gljúfrasteinn er viðurkennt safn skv. safnalögum nr. 141/2011 og hefur í því samhengi ákveðnu hlutverki að gegna gagnvart íslensku samfélagi. Í þarfagreiningunni er lagt til að þörf sé á vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk safnsins, sýningarsal, varðveislurými, veitingasölu, safnbúð og aðstöðu fyrir fræðimenn. Laxnesssetur á að vera allt í senn margnota, sveigjanlegt og lifandi.

Allt frá því að safnið var opnað á Gljúfrasteini þann 4. september 2004 hefur legið fyrir að þörf væri á viðbótarhúsnæði til að rúma starfsemi safnsins. Húsið, sem áður var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness er í raun safngripur en líka vinnustaður, þar eru sýningar og annarskonar aðstaða fyrir menningarviðburði.  Húsið er hins vegar lítið og oft á tíðum er þröngt þegar fjölmennir hópar heimsækja safnið.

Það er því fagnaðarefni að ríkissjóður hafi nú keypt húsið Jónstótt sem stendur vestan megin við Gljúfrastein, ásamt lóðinni í því augnamiði að byggja upp menningarsetur þar sem verður meðal annars aðstaða til rannsókna og fræðistarfa.

Í svari Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Bryndísar Haraldsdóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokks kemur fram að kaupin séu mikilvæg fyrir uppbyggingu Laxnessseturs. Ennfremur að litið sé til þess að samkvæmt deiliskipulagi fyrir Þingvallaveg verði breyting á legu vegarins sem myndi gera núverandi bílastæði við Gljúfrastein ónothæf en bílastæði í landi Jónstóttar lægi mjög vel við safninu.  

Endanleg ákvörðun um með hvaða hætti húsnæðið og lóðin að Jónstótt verður nýtt í þágu uppbyggingar Laxnesssetursins verður tekin síðar og til þess verður skipaður starfshópur með fulltrúum menntamálaráðuneytisins, Mosfellsbæjar, stjórnar Gljúfrasteins og Framkvæmdasýslu ríkisins.