Ljóðasöngur á Gljúfrasteini

09/08 2010

Hallveig Rúnarsdóttir og Hrönn Þráinsdóttir, söngur og píanó

Sunnudaginn 15. ágúst næstkomandi klukkan 16 munu Hallveig Rúnarsdóttir og Hrönn Þráinsdóttir flytja lög úr Sjálfstæðu fólki eftir Atla Heimi Sveinsson og Frauenliebe und -leben op. 42 eftir Robert Schumann.

Atli Heimir Sveinsson samdi lögin sem hér eru flutt fyrir sýningu Þjóðleikhússins 1999 á Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness í leikgerð Sveins Einarssonar. Nokkur laganna hafa náð töluverðri útbreiðslu, þó helst Maríukvæði og svo Klementínudans sem flestir landsmenn þekkja eftir að það var notað í áhrifamikilli auglýsingu frá Umferðarstofu fyrir nokkrum árum. Lögin eru grípandi og falleg í senn enda Atli einn besti laglínusmiður þjóðarinnar og henta þau vel ljóðum nóbelskáldsins.

Árið 1840-41 stóð Robert Schumann frammi fyrir miklum sviptingum í lífi sínu þegar hann fékk loks að ganga að eiga heittelskaða unnustu sína, Clöru. Þetta ár reyndist verða ár sönglagsins í lífi tónskáldsins enda fann hann þar það jafnvægi tónlistar og ljóðlistar sem hann hafði leitað að. Þetta ár samdi hann meira en helming sönglaga sinna, auk Frauenliebe und -leben sem við heyrum í dag urðu ljóðaflokkarnir Dichterliebe og Myrten líka til auk fjölda laga við ljóð Heine og Eichendorff. Frauenliebe und -leben hefur þó legið nokkuð undir ámæli síðustu ár þar sem flokkurinn þótti ekki gagnast vel í kvenréttindabaráttunni en við látum það þó ekki trufla okkur heldur njótum þess að flytja þessi guðdómlega fallegu lög.

Hallveig Rúnarsdóttir hóf söngnám hjá Sigurði Demetz árið 1991. Hún lauk 8. stigi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Rutar L. Magnússon árið 1998. Það sama ár hóf hún nám hjá Theresu E. Goble við Guildhall School of Music and Drama í London og útskrifaðist þaðan með láði sumarið 2001.

Meðal hlutverka Hallveigar eru Fiordiligi í Cosi fan tutte eftir W.A. Mozart, Jane í Happy End eftir Kurt Weill, Servilia í La Clemenza di Tito eftir W. A. Mozart , Echo í óperunni Ariadne auf Naxos eftir Richard Strauss og Giannetta í óperunni Ástardrykknum eftir Donizetti. Hallveig hefur nokkrum sinnum komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hún hefur einnig sungið með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, kammersveitinni Aldavinum, kammerhópnum Caput, Kammersveit Hafnarfjarðar, Íslensku kammersveitinni og Jón Leifs Kammerata. Hallveig hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim, er virkur óratóríusöngvari hér á landi og víðar og hefur einnig lagt áherslu á flutning barrokk og endurreisnartónlistar. Hún er einn af stofnendum kammerhópsins Rinascente. Hallveig hefur sérstaklega verið virk í flutningi nýrrar tónlistar og hefur frumflutt mörg ný íslensk verk, t.d. á Listahátíð í Reykjavík og á Sumartónleikum í Skálholti, auk upptaka fyrir ljósvakafjölmiðla.

Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari hóf nám við Tónmenntaskólann í Reykjavík 7 ára gömul hjá Erlu Stefánsdóttur. Hún stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík á árunum 1991-1998 hjá Jónasi Ingimundarsyni og lauk þaðan burtfararprófi. Í Þýskalandi stundaði hún nám við tónlistarháskólann í Freiburg og lauk þaðan Diploma kennaraprófi með ljóðasöngsmeðleik sem aukafag vorið 2004. Kennarar hennar voru Prof. Dr. Tibor Szasz í píanóleik og Prof. Hans-Peter Müller við ljóðasöngdeild. Að því loknu stundaði hún nám við tónlistarháskólann í Stuttgart undir handleiðslu Prof. Cornelis Witthoefft þar sem hún lauk sumarið 2007 sérhæfðu Diploma námi við ljóðasöngdeild skólans.

Hrönn hefur komið fram á tónleikum víða, meðal annars í Þýskalandi, Austurríki, Ítalíu og á Íslandi sem einleikari, meðleikari og við flutning kammertónlistar. Hún hefur verið meðlimur kammersveitarinnar Ísafoldar frá árinu 2004 en sveitin hlaut íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins fyrir árið 2007. Hrönn er kennari við Söngskólann í Reykjavík.

Aðgangseyrir er 1.000 krónur og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Stofutónleikar Gljúfrasteins eru alla sunnudaga kl. 16.00 í sumar.

Við viljum vekja athygli á að Mos-Bus ekur ókeypis um Mosfellsbæ í sumar. Ferðamannastrætóinn keyrir um götur bæjarins alla daga vikunnar og stoppar á öllum helstu áfangastöðum hans. Gljúfrasteinn er að sjálfsögðu einn af þeim stöðum. Með þessu er verið að bjóða þægilegan og einfaldan möguleika fyrir Íslendinga jafnt og útlendinga til þess að upplifa allt það helsta sem bærinn hefur upp á að bjóða.