Heimur í myndum á Gljúfrasteini

28/04 2011

Mynd úr XXX eftir Hlín Ólafsdóttur og Ívar Marrow

Næstkomandi sunnudag, 1. maí, verður kynnt samstarf ritlistarnema og myndlistarnema og sýnt og lesið upp úr myndskreyttum sögum. Upplesturinn hefst klukkan 16 og er aðgangur ókeypis.

Birna Dís Eiðsdóttir, Freyja Eilíf Logadóttir og Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson munu kynna verk um vélmennið M.C. Tungli, sem flakkar um fortíðina í leit að svörum. Esther Ýr Þorvaldsdóttir, Bergrún Íris Sævarsdóttir og Orri Snær Karlsson munu lesa úr og sýna verk sitt um froskastrákinn Davíð sem hefur leit að fjársjóði ættföðurs síns. Hanna Aniela Frelek og Kristján Már Gunnarsson sýna myndskreytta bók með svarthvítum teikningum við stutt nútímaævintýri. Hlín Ólafsdóttir og Ívar Marrow munu leika sér með samspil texta og mynda.

 

Í vetur hafa nemendur í ritlist við Háskóla Íslands verið gestir í stofunni á Gljúfrasteini og lesið upp úr nýjum verkum sínum. Í ritlist gefst áhugafólki um ritsmíðar færi á að þroska hæfileika sína undir handleiðslu reyndra höfunda. Lögð er áhersla á frjóa hugsun og miðlun hennar í listrænum texta af ýmsu tagi. Frá því að Gljúfrasteinn var byggður árið 1945 hefur húsið verið miðstöð menningar hér á landi og því er ánægjulegt að samstarf hafi hafist við ritlistardeild HÍ með þessu móti.

Í janúar síðastliðnum voru lesin upp ljóð, í febrúar var lesið úr útgefnum verkum Ritvélarinnar og í mars voru lesnar furðusögur á Gljúfrasteini. Næsta sunnudag verður kynnt samstarf ritlistarnema og myndlistarnema og lesið úr myndskreyttum sögum en í lok maí verður lesið úr skapandi ritgerðum, verkum sem á ensku nefnast creative non-fiction.