Halldór og hinir síðari daga heilögu

12/07 2011

Fred E. Woods

Vinafélag Gljúfrasteins mun standa fyrir fyrirlestri næsta fimmtudagskvöld, þann 14. júlí.  Þar mun Fred E Woods, bandarískur fræðimaður sem sérhæfir sig í sögu Mormónakirkjunnar, fjalla um tengsl Halldórs og hinna síðari daga heilögu.

Þó að Halldór Laxness hafi lítið hirt um skipulögð trúarbrögð eftir að hann varð afhuga kaþólskunni sem hann hafði aðhyllst sem ungur maður, þá hafði hann á tímabili mikinn áhuga á brottflutningi Íslendinga til Bandaríkjanna til að gerast mormónar.  Hann fór sjálfur tvisvar til Utah og skrifaði um þetta málefni skáldsöguna Paradísarheimt

Fred Woods er menntaður í sálfæði og alþjóðasamskiptum, en doktorsritgerðin hans fjallaði um miðausturlensk fræði með áherslu á hebresku biblíuna.  Hann skírðist til mormónakirkjunnar tvítugur að aldri og hefur helgað mestan hluta starfsævi sinnar rannsóknum á sögu  hennar.  Hann hefur haldið fyrirlestra víðsvegar um Bandaríkin og Ástralíu auk þess sem hann hefur verið gestakennari við Háskóla Íslands.  Hann hefur skrifað nokkrar bækur, þeirra á meðal Eldur á ís, sem fjallar um brottflutning Íslendinga til Utah.

Fyrirlesturinn verður á ensku og hefst klukkan 20.00. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.