Halldór Laxness og Svavar Guðnason

18/01 2013

Á einum veggnum í vinnustofu Halldórs Laxness, er málverkið Sumar eftir Svavar Guðnason. Eitt af ófáum verkum Svavars sem prýða veggi Gljúfrasteins.

Svavar Guðnason var góður vinur Halldórs Laxness og mörg verk hans prýða veggi Gljúfrasteins.

Í vinnustofu Halldórs eru á annað þúsund bækur, um allt milli himins og jarðar, bókmenntir, félagsfræði og trúmál, svo eitthvað sé nefnt. Málverk eru einnig áberandi og það veitti skáldinu innblástur að horfa á verk Svavars. Halldór flutti erindi um hann í útvarp þegar Svavar var sjötugur.

„Þegar maður virðir fyrir sér litróf Svavars Guðnasonar, verður ekki betur séð en þar ráði furðulegt blæbrigði af rauðu.......Það er vissulega ekki eiginlegt sólskin í málverki Svavars Guðnasonar, en allir sem sjá vilja, undrast hvílík birta býr í litrófi hans. Og útlendingar segja stundum þegar þeir sjá þennan litblæ Svavars sem sker sig úr innan um aðrar myndir: Þetta er birta Íslands.“

Halldór Laxness fangaði birtu Íslands, ljós og skugga mannlífsins, í bókum sínum, þótt hann hafi ekki talið starf rithöfundarins merkilegra en hverja aðra vinnu.