Gömul klukka

17/02 2011

Klukkan var smíðuð hjá James Cowan í Edinburg án þess að smíðaárs sé getið, úrverkið er frá 1770, en kassinn sjálfur frá Borgundarhólmi í Danmörku. Í skáldsögu sinni Brekkukotsannál, lætur Halldór svona klukku næstum því tala. Klukkan stendur vaktina í bænum Brekkukoti og tifar Eilíbbð, Eilíbbð í eyru aðalsöguhetjunnar Álfgríms.

Klukkan sem segir ei-líbbð, ei-líbbð.

Margir merkir munir eru á Gljúfrasteini, þeirra á meðal er gömul skosk standklukka þar sem eilífðin býr.

Halldór sá þessa klukku fyrst barn að aldri í heimsókn hjá ömmursystur sinni í Melkoti. Þar bjuggu þá Guðrún Klængsdóttir og Magnús Einarsson sem seinna urðu fyrirmyndir að ömmunni og afanum í Brekkukoti í skáldsögunni Brekkukotsannáll. Klukkan birtist einnig í skáldsögunni og er hún það úrverk sem Álfgrímur aðalsögupersónan lítur á sem hina einu sönnu klukku.

Í Brekkukotsannáli mælir Álfgrímur þessi orð um klukkuna: „Hvurnig stóð á því að ég skildi fá þá flugu að í þessari klukku byggi merkilegt kvikindi, og það væri eilífðin? Það rann sumsé upp fyrir mér einn dag að orðið sem hún sagði þegar hún tifaði, tveggja atkvæða orð sem var dregið á seinna atkvæðinu, það væri ei-líbbð, ei-líbbð. Kannaðist ég þá við þetta orð?“ (Brekkukotsannáll, bls. 10).

Árið 1916 skrifaði Halldór Laxness, þá aðeins 14 ára gamall, grein í Morgunblaðið sem nefnist „Gömul klukka.“ Í blaðagreininni rekur Halldór sögu klukkunnar, hann getur þess að hún er smíðuð í Edinborg í Skotlandi af klukkusmiðinum James Cowan (sem lést árið 1781) og rekur hvernig klukkan kom á Laxnes í Mosfellssveit. Í niðurlagi greinarinnar sýnir Halldór rithöfundatakta og segir: „Það slær í augum manns einkennilegum helgiblæ á ýmsa forna hluti - hluti, sem hafa verið lengi við líði og eiga sér sögu. Komi maður inn á forngripasafn, fellur hugur hans í stafi við að standa auglitis til auglitis við helgidóma fortíðarinnar.“

Áhugasamir geta nálgast blaðagrein Halldórs hérna á tímarit.is, en hún birtist þann 7. nóvember 1916.