Djass fyrir þig í stofunni

21/07 2015

Jón Rafnsson, Ómar Einarsson og Jakob Hagerdorn-Olsen.

Trio Nor flytur þekkta djass standarda eftir Horace Silver, Antonio Carlos Jobim,  Charlie Haden og fleiri á stofutónleikum Gljúfrasteins næstkomandi sunnudag.  Útsetningar tríósins eru líflegar og greina má áhrif bæði klassískrar tónlistar og djasstónlistar.  Í djasstónlist tíðkast að spila á rafgítar en með notkun klassískra gítara myndast áhugaverður hljóðheimur.

Gítardúettinn Duo Nor hefur verið starfræktur í 13 ár og haldið tónleika víða við góðar viðtökur. Jón Rafnsson bassaleikari hóf samstarf með þeim Ómari Einarssyni og Jakobi H. Olsen haustið 2014. Þessi liðsauki gefur dúóinu nýjan og skemmtilegan blæ og starfa þeir félagar nú undir nafninu Trio Nor.

Stíllinn er á suðrænum nótum en einnig má heyra áhrif frá bæði klassískri tónlist og djasstónlist.

Stofutónleikar Gljúfrasteins eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.

Dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni.