Bréf Ingu og Halldórs á Vinafélagskvöldi

23/02 2011

Halldór við skriftir á bókasafninu að Laugarvatni sumarið 1933. Þetta sumar var Halldór að vinna að Sjálfstæðu fólki en fleiri bækur hans urðu til þarna.

Vinafélag Gljúfrasteins stendur fyrir fyrirlestrum á Gljúfrasteini núna fimmtudaginn 24. febrúar næstkomandi. Guðrún Pétursdóttir mun kynna Vinafélag Gljúfrasteins, Halldór Guðmundsson segir frá bréfum Halldórs til Ingu sem væntanleg eru á bók og Bjarki Bjarnason greinir frá baksviði og persónum Innansveitarkroniku og styðst við ljósmyndir. Dagskráin er opin öllum hefst kl. 20 og er aðgangur ókeypis.

Dagskrá:

Guðrún Pétursdóttir mun hefja dagskrána og kynna Vinafélag Gljúfrasteins fyrir gestum safnsins.

Halldór Guðmundsson fjallar um bréf Halldórs til Ingu. Um nokkurt skeið hefur það verið til umræðu að gefa út safn af bréfum Halldórs Laxness. Fyrsta bindið fer senn að vera tilbúið til prentunar, en það geymir bréf Halldórs til fyrri eiginkonu sinnar, Ingibjargar Einarsdóttur. Hafa þeir Einar Laxness, sonur Ingu, og Halldór Guðmundsson annast útgáfuna. Bréfin eru skrifuð á árunum 1927 til 1939 og fylla hátt á þriðja hundrað blaðsíður. Lesendur þekkja opinber skrif Halldórs, en í bréfunum birtast hugsanir hans áður en þeim hefur verið ritstýrt fyrir opinberan vettvang, metnaður hans nakinn, dugnaður og sjálfsagi, listræn viðhorf og pólitískar hugsjónir, og alltaf í baksviði samband hans og Ingu. Á þessu kvöldi mun Halldór Guðmundsson segja frá bréfunum og lesa kafla úr þeim.

Bjarki Bjarnason kynnir baksvið Innansveitarkróniku. Innansveitarkronika, sem kom út árið 1970, sækir meðal annars efnivið sinn í fræga deilu á ofanverðri 19. öld þegar Mosfellskirkja var jöfnuð við jörðu en síðan endurreist á nýrri öld. Bjarki mun greina frá baksviði og persónum sögunnar og styðjast við ljósmyndir í stofuspjalli sínu. Einnig mun hann velta fyrir sér hugtökunum sagnfræði og skáldskap í tengslum við Innansveitarkroniku.